Ungó, Hafnargötu 6, Keflavík
„Við fórum í miklar breytingar og endurbætur á sjoppunni fyrir um einu og hálfu ári, lokuðum í mánuð og byggðum staðinn í raun upp á nýtt. Við gerðum miðpunktinn í búðinni að ísbúð og núna er þetta orðin ein af helstu ísbúðum landsins og gefur stærstu ísbúðunum í Reykjavík ekkert eftir. Við erum með 64 tegundir fyrir bragðaref, 18 tegundir af kúluís og fjórar tegundir af ís úr vél,“ segir Valgeir Magnússon hjá Ungó, Hafnargötu 6 í Keflavík. Ísinn í Ungó kemur frá Kjörís og er afar vinsæll.
Ungó er fjölskyldufyrirtæki en Valgeir keypti staðinn með foreldrum sínum árið 2004. „Foreldrar mínir eru farnir út úr þessu en ég rek staðinn með eiginkonu minni, Þorgerði Sigurbjörnsdóttur,“ segir Valgeir. Fyrir utan ísinn er Ungó þekkt fyrir úrval af góðum skyndibita, pítsum, hamborgurum og pylsum. Vinnandi fólk í Keflavík sækir sér gjarnan hádegismat í Ungó og nemendur úr fjölbrautaskólanum streyma þangað núna eftir að skólaárið byrjaði fyrir skömmu. Valgeir býst við miklum mannfjölda á Ljósanótt sem haldin verður dagana 30. ágúst til 3. september.
„Ég hefði ekki getað beðið um betri staðsetningu fyrir hátíðina en við erum beint á móti sviðinu og bergið er beint á móti okkur. Síðan er þetta alltaf að stækka. Hátíðin nær hámarki á laugardaginn og þá þurfum við að vera hérna 10 til 15 í afgreiðslu. Veðrið hefur reyndar mikið að segja en í fyrra var sól og blíða og veðurspáin er góð núna,“ segir Valgeir.
Ungó er líka þekkt fyrir veglegan nammibar en ólíkt mörgum öðrum stöðum þá er 50% afsláttur á nammibarnum ekki bara á laugardögum heldur alla helgina, föstudag, laugardag og sunnudag.
Opnunartími í Ungó er frá 9 á morgnana og til 23 á kvöldin á virkum dögum. Á laugardögum og sunnudögum er opið frá 10 og fram til miðnættis en á Ljósanótt verður opið til eitt um nóttina. Ef þú hefur ekki fengið þér ís í Ungó ennþá er kominn tími til að prófa – og gestir Ljósanætur láta ekki ógert að kíkja í Ungó.