Eiður Valdemarsson opnaði vefsíðuna ValdemarssonFlyfishing árið 2012. Þar selur hann vandaðar flugustangir, fluguhjól, flugulínur, króka og efni til fluguhnýtinga, ásamt handhnýttum flugum Eiðs.
„Ég opnaði síðuna upp á hobbíið að gera, því eftir hrun var allt orðið svo dýrt og einnig var erfitt og stundum ógerlegt að fá efni til fluguhnýtinga hér í verslunum þannig að ég skoðaði vel hvort hægt væri að flytja inn vörur og vera með mikið úrval og lægra verð og útkoman er www.valdemarssonflyfishing.com.“
Eiður er fæddur og uppalinn í Reykjavík, en flutti með fjölskylduna til Bolungarvíkur í maí enda kona hans fædd og uppalin þar, og rekur hann verslunina í bílskúrnum heima. Meirihluti viðskiptanna fer fram í gegnum vefsíðuna, en viðskiptavinum sem staddir eru fyrir vestan er alltaf velkomið að hafa samband og koma í heimsókn. Vefsíðan er „aukahobbí,“ en Eiður starfar sem gólfbónari og hefur unnið við það í 12 ár. „En fluguhnýtingar og veiði hafa verið áhugamál frá því ég var krakki.“
Vefsíðan var opnuð í núverandi mynd fyrir þremur árum. „Áður var ég með erlenda vefsíðu, sem ég byrjaði með um 2012.
Það er líka gaman að geta boðið upp á vörur sem hafa verið frekar dýrar á Íslandi þannig að fólk hefur veigrað sér við hnýtingar. Ég er til dæmis með króka og kúluhausa á svipuðu verði og á Aliexpress, þannig að í raun borgar sig ekki fyrir fólk að flytja efni inn sjálft.
Ég var að fá umboð fyrir Ahex-krókana, það eru hágæða skandinavískir krókar. Ég er líka kominn með veiðijakka sem ég lét hanna og gera í Pakistan. Hann er fjögurra laga, vatnsheldur og með fóðri inni í þannig að þú þarft ekki að vera jafn vel klæddur og í öðrum jökkum þegar kalt er úti. Síðan þegar heitt er úti þá bara rennir þú fóðrinu úr. Einnig eru vöðlur á leiðinni.“
Erlendir veiðimenn og -konur kaupa aðallega flugur hjá Eiði, en sumir mun meira. „Það komu norsk hjón hér um daginn, bönkuðu upp á og keyptu stöng, hjól, línu og flugur og fóru svo á Snæfellsnes að veiða. Þau sendu mér síðan myndir frá veiðinni, en þau mokveiddu á flugurnar mínarr, stærstur var sjóbirtingur 3,8 kíló.“
Eiður sendir hvert sem er, og frí heimsending er í boði ef verslað er fyrir 4.000 krónur eða meira.
Allar upplýsingar má fá á vefsíðunni valdemarssonflyfishing, í síma 691-6909 og með tölvupósti valdemarssonflyfishing@outlook.com.