Á Breiðdalsvík reka Helga Rakel Arnardóttir og Elís Pétur Elísson Kaupfjelagið, litla fallega matvöruverslun, þá einu í bæjarfélaginu, og kaffihús með „fish and chips“ og fleiri veitingum.
„Við keyptum reksturinn og verslunarhúsið fyrir ári síðan,“ segir Helga, sem er ættuð frá Hvammstanga, en Elís er frá Breiðdalsvík. Verslunin er sett upp á gamaldags máta og má þar finna mikið af munum úr sögu kaupfélagsreksturs á Breiðdalsvík.
Eins er að finna söguágrip af uppbyggingu staðarins, gamlar myndir og skjöl sem gaman er að grúska í með kaffinu.
Hjá Kaupfjelaginu er gott úrval af mat- og gjafavöru og á grillinu er boðið upp á hamborgara, paninibrauð, pulled pork, bökur og „local fish and chips,“ en fiskurinn kemur frá útgerð sem Helga og Elís reka einnig á staðnum. Pitsuofninn er alltaf í gangi á föstudögum og laugardögum og ýmsum fleiri tyllidögum.
Kaupfjelagið þjónar mikilvægum tilgangi sem verslun og kaffihús, bæði fyrir heimamenn en ekki síður fyrir gesti sem sækja Breiðdalsvík heim, en í bænum búa um 140 manns. Á sumrin er staðurinn vel sóttur af ferðamönnum, bæði innlendum og erlendum. „Iðnaðarmenn og sjómenn koma mikið til okkar í hádeginu í mat og í pitsu um helgar. Það eru mjög margir heimamenn sem koma hér á hverjum degi, sumir oft á dag, og fá sér kaffi og sitja lengi og spjalla. Maður hittir alltaf alla í Kaupfjelaginu,“ segir Helga. „Svo gildir það sama hér og annars staðar: „Ef það fæst ekki í Kaupfjelaginu, þá þarftu það ekki.“
Kaupfjelagið er að Sólvöllum 25, Breiðdalsvík. Síminn er 475-6670 og netfangið er kaupfjelagid@gmail.com
Afgreiðslutími sumars er 10–20 alla daga nema sunnudaga en þá er opið til 17. Afgreiðslutími vetrar er kl. 11–17 alla daga.
Kaupfjelagið er á Facebook: Kaupfjelagid Verzlun – Kaffihús