Í hjarta Skagafjarðar reka þau hjónin Elvar Einarsson og Fjóla Viktorsdóttir hestatengda ferðaþjónustu á bænum Syðra-Skörðugili.
„Hestaleigan er bara opin á sumrin hjá okkur, en gistingin allt árið,“ segir Elvar Einarsson. „Á veturna höfum við hins vegar opið fyrir minni hópa í kennslu og reiðtúra sem bókað er fyrirfram í. Við eigum mikið af góðum hestum sem nýtast bæði fyrir byrjendur og lengra komna, en allt að 18 manns geta farið á bak í einu.“
Boðið er upp á nokkrar tegundir af styttri ferðum í hestaleigunni, sem dæmi Forsetahringinn en það er stutt ferð hér í kringum bæinn sem við fórum með Guðna forseta og fjölskyldu fyrir nokkrum árum, sú ferð tekur bara 45 mínútur og er fín fyrir byrjendur. Einnig er hægt að bóka 12 og þriggja klukkustunda ferðir. Einnig er boðið upp á dagsferðir. „Við gerum bara það sem fólk langar til að gera.
Sem dæmi má taka að ef ég er með 20 manna hóp þar sem allir eru byrjendur þá fer ég með þá Forsetahringinn sem tekur um eina klukkustund á feti.“
Það fer vel um alla í Ömmubæ
Afi og amma Elvars byggðu upphaflega húsið sem nú er gistihús í húsinu og síðan bjuggu Elvar og hans fjölskylda þar í nokkur ár. „Síðan byggði ég nýtt hús og þá bjó vinnufólkið okkar í gamla húsinu. Húsið var orðið svo illa farið að það var annaðhvort að rífa það eða gera það upp. Við tókum ákvörðun um að gera það alveg upp. Tókum gólf, veggi og endurskipulögðum.“
Ákveðið var að leigja húsið út til að framkvæmdin myndi borga sig. Í húsinu eru fimm herbergi, eitt þriggja manna, tvö fjögurra manna og tvö tveggja manna og geta alls 15 manns sofið í húsinu. Þar er einnig heitur pottur sem er vinsæll og mikið notaður og flott útsýni yfir fjörðinn.
„Þetta er fjórða árið okkar í ferðaþjónustunni,“ segir Elvar, en bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn koma að Syðra-Skörðugili, þó að meira sé af erlendum ferðamönnum yfir sumartímann. „Við erum með gistinguna í boði á booking. com og flestar bókarnir koma í gegnum þá síðu. Síðan eru margir að koma aftur sem hafa verið áður,“ segir Elvar. Sé booking.com skoðuð má sjá að ummæli viðskiptavina eru góð.
Á sumrin er einnig boðið upp á lengri hestaferðir , 5–6 daga, þar sem farið er í Merkigil og fleiri staði og fjórar ferðir eru fram undan í sumar. „Einnig fáum við til okkar skólahópa í maí til að fylgjast með sauðburði og fara á hestbak og það hefur verið mjög vinsælt,“ segir Elvar, sem er reiðkennari og tamningamaður líka, en hann var að sýna á kynbótasýningu fyrir helgi fjögur hross sem fengu öll fyrstu verðlaun.
Syðra-Skörðugil er í Varmahlíð, síminn er 893-8140 og netfangið er info@sydraskordugil.is
Heimasíða.
Facebooksíða.