Hótel Varmahlíð stendur á besta stað við Þjóðveg 1 og hefur verið áningarstaður ferðamanna um landið í áraraðir. Nýir eigendur, Stefán Gísli Haraldsson og Unnur Gottsveinsdóttir, taka þar vel á móti gestum. Á veitingastaðnum er áherslan lögð á hráefni úr héraðinu.
„Árið 1934 byrjaði Hótel Varmahlíð sem greiðasala og fyrsta húsið sem var í Varmahlíð,“ segir Stefán, „rúturnar stoppuðu hér, hér var einnig póstur og símstöð. Um 1944–5 var svo byggt ofan á húsið og þá var byrjað að bjóða upp á gistingu hér.“
Stefán og Unnur keyptu hótelið 1. júlí í fyrra, en hvað varð til að þau ákváðu að fara í hótel- og veitingarekstur? „Við höfum áhuga á þessu,“ segir Stefán, en þau reka einnig Menningarhúsið Miðgarð og hafa gert síðan árið 2012.
„Unnur er ferðamálafræðingur, hún kom í Skagafjörð árið 2008 og ætlaði að vinna eitt sumar á hótelinu en ílengdist. Sjálfur er ég fæddur og uppalinn í Skagafirði. Við höfum mikla trú á ferðaþjónustu í Skagafirði enda er hér margt í boði; frábær aðstaða fyrir útivist með Drangeyjarsiglingum, flúðasiglingum, hestaferðum og svo mætti áfram telja.“
Hótelið er opið allt árið, en veitingastaðurinn frá byrjun maí út október. Utan þess opnunartíma er tekið á móti hópum, minni og stærri, samkvæmt samkomulagi. Einnig eru jólahlaðborð í desember.
Áherslan á hráefni úr héraði og lambið vinsælast
Veitingastaður Hótel Varmahlíðar leggur áherslu á þægilega upplifun, góða þjónustu og fyrsta flokks hráefni. Veitingastaðurinn, sem tekur 80 manns í sæti, er opinn öllum, hótelgestum sem öðrum. Opið er frá hádegi og fram á kvöld. „Við leggjum áherslu á hráefni úr héraði og lambið er vinsælast,“ segir Stefán.
Á Hótel Varmahlíð er eins og áður sagði boðið upp á matseðil þar sem áherslan er lögð á mat úr héraði, sem dæmi má nefna að ferska salatið kemur frá Garðyrkjustöðinni Laugarmýri, þorskhnakkarnir koma beint úr vinnslu á Sauðárkróki og rækjurnar frá Dögun á Sauðárkróki. „Við nýtum allan skrokkinn af lambinu, á matseðli er lambafillet eða lambaprime en einnig gúllassúpa. Hótelgestir geta svo gætt sér á kæfu og rúllupylsu á morgunverðarhlaðborðinu ásamt úrvali af öðru áleggi.
Það er mjög gaman að vera í veitinga- og hótelgeiranum, við erum einstaklega heppin með starfsfólk og enginn dagur er eins,“ segir Stefán sem býður gesti velkomna á Hótel Varmahlíð í hjarta héraðsins.
Hótel Varmahlíð er að Varmahlíð við Þjóðveg 1, síminn er 453-8170 og netfangið info@hotelvarmahlid.is.
Heimasíða og Facebooksíða: Hótel Varmahlíð.