Nesbær kaffihús í Neskaupstað var stofnað 1. maí 1998 og átti því tvítugsafmæli fyrr í mánuðinum. Eigandi frá upphafi er Sigríður Þ. Vilhjálmsdóttir.
Nesbær er í stóru og fallegu húsi í hjarta miðbæjarins og áherslan er lögð á notalegt og heimilislegt andrúmsloft, þar sem léttir réttir og kökur eru á matseðlinum. „Þetta er svolítið eins og þú sért að koma í heimsókn til mín,“ segir Sigríður.
„Við erum með dæmigerðan kaffihúsamatseðil: létta rétti, súpu dagsins, crepes, fisk, samloku hússins og pizzur. Léttir rétti sem henta fyrir alla og eru á viðráðanlegu verði. Við reynum að verða við öllum óskum viðskiptavina okkar.“
Heimabakaðar kökur eru einnig á boðstólum og alltaf er boðið upp á köku mánaðarins, sem dæmi er kaka maímánaðar súkkulaðikaka.
Frítt net er í boði fyrir viðskiptavini.
En Nesbær býður ekki bara upp á mat því þar er einnig hægt að kaupa blóm, gjafavöru, lopa og íslenskar lopapeysur sem eru prjónaðar á staðnum.
„Í Neskaupstað og á Norðfirði er frábært náttúrusvæði, fallegar gönguleiðir og gaman að koma hingað og njóta náttúrunnar. Framundan eru tvær hátíðir þar sem íbúafjöldinn margfaldast: Eistnaflug er 11. – 14. júlí og Neistaflug um verslunarmannahelgina.“
Það er því tilvalið að kíkja við í Nesbæ á leið um Austurland, njóta heimilislegs andrúmslofts og ljúfra veitinga.
Nesbær er á Egilsbraut 5, Neskaupstað, síminn er 477-1115, netfangið er nesbaer@simnet.is.
Nesbær er á Facebook.