Vitað hefur verið að þyngdaraukning gæti valdið því að bragðskyn dofni og jafn framt að þeirri þróun væri hægt að snúa við. Það er að þegar einstaklingur grennist aukist bragðskynið á nýjan leik. Hingað til hefur ástæðan fyrir þessu ekki verið kunn ný bandarísk rannsókn varpar ljósi á þetta. Vísindavefurinn Plos.org greinir frá.
Þann 20. mars birtu líffræðingar frá Cornell háskóla í Bandaríkjunum niðurstöður rannsókna sinna. Fyrir rannsókninni fóru Andrew Kaufman og Robin Dando en hún var gerð með prófunum á músum.
Í hverjum bragðlauk eru um 50 til 100 frumur af þremur gerðum sem hafa mismunandi hlutverk við að nema bragðtegundirnar fimm. Þær eru salt, sætt, súrt, sterkt, beikst og samanherpandi. Endurnýjun fruma í bragðlaukunum er mjög ör og dugar hver fruma aðeins í um það bil 10 daga.
Til að prófa áhrif offitu á bragðlaukana gáfu vísindamennirnir músum misfeita fæðu. Einn hópurinn fékk fæðu með 14 prósentum af fitu en hinn með 58 prósent. Eftir átta vikur voru þær sem fengu feitari fæðuna um þriðjungi þyngri en hinar. Það sem kom einnig í ljós var að sá hópur hafði 25 prósent minna af bragðlaukum.
Það sem vísindamennirnir komust að var að frumudauði í bragðlaukum varð mun hraðari hjá feitu músunum en frumuendurnýjun varð að sama skapi hægari. Þetta orsakaði að jafnvægið raskaðist og bragðlaukunum fækkaði. Bragðlaukum fækkaði þó ekki hjá þeim músum sem höfðu erfðafræðilega eiginleika sem hömluðu offitu.