Egilshöll, Fossaleyni 1 Reykjavík, var opnuð árið 2002 og tveimur árum síðar hófst rekstur skautasvellsins þar. Það hefur yfirleitt verið opið á veturna en lokað á sumrin. Í seinni tíð er svellið hins vegar opið fyrir hópa í sérpantaða tíma á sumrin líka en eftirspurn hefur aukist mikið, annars vegar frá erlendum ferðamönnum og hins vegar frá íslenskum fyrirtækjum sem mæta með starfsmannahópa í skautatíma, en það þykir vera fyrirtaks hópefli. Barnaafmæli á skautasvellinu eru líka afskaplega vinsæl.
Skautasvellið er opið á miðvikudögum og föstudögum frá 17 til 19 og laugardaga og sunnudaga frá 13 til 16. Skautaleiga er á staðnum. Einstaklingar þurfa ekki að panta tíma til að komast á skauta en ef um hópa er að ræða, til dæmis starfsmannahópa eða barnaafmæli, er hringt í síma 664-9604 og pantaður tími.
„Við notum sérstakan íshefil sem heitir Zamboni til að þrífa skautasvellið. Hefilinn sker efsta lagið af og setur nýtt lag í staðinn,“ segir Egill Gómez, framkvæmdastjóri rekstrarfélags Egilshallar, þegar hann er beðinn um að útskýra hvernig maður viðheldur vélfrystu skautasvelli inni í húsinu. „Snjórinn sem safnast saman fer í stóran kassa sem er framan á heflinum og að lokum er sett 60 gráðu heitt vatn ofan á klakann en þannig verður skautasvellið spegilslétt.“
Það er ákaflega rómantískt og klassískt að fara með elskunni sinni á skauta og er þetta kjörin dægrastytting fyrir pör og hjón í lok vinnudagsins á Valentínusardaginn, næstkomandi miðvikudag, en þá er skautasvellið einmitt opið frá 17 til 19.
„Í tilefni dagsins verður tveir fyrir einn tilboð á svellið,“ segir Egill. Þetta ætti að hvetja ástfangin pör enn frekar til að gera daginn ógleymanlegan með rómantískri skautaferð á skautasvellið í Egilshöll.