Birkir Vagn – Yfir hundrað manns á biðlista eftir þjálfun
Birkir Vagn er menntaður íþróttafræðingur sem starfar í World Class Laugum þar sem hann býður upp á hópþjálfun sem ber nafnið MGT. Gríðarleg aðsókn er í tímana og eru yfir hundrað manns á biðlista.
„Ég vinn við að þjálfa í World Class Laugum og hef gert í fjögur ár, en alls eru átta ár síðan ég byrjaði að þjálfa,“ segir Birkir Vagn. „Fyrir þremur árum útbjó ég hópþjálfun sem ég kalla MGT, sem hefur verið uppbókað í í rúmt ár og yfir hundrað manns eru á biðlista. Þetta eru 15 manna hópar og fólk sem er vant að vera í hóp finnur sig þarna, frekar en að vera eitt í salnum að lyfta. Þjálfunin er klukkutími í hvert sinn, þar sem þarf að leysa verkefni ýmist einn, með félaga eða með þremur öðrum. Fólk getur komið með félaga eða eitt og sér en þarna hafa skapast vinabönd. Sem dæmi má nefna að ein sem þjálfar hjá mér gifti sig í sumar og bauð vinkonum sem hún kynntist í þjálfuninni hjá mér.“
„Ég geri mikið úr félagslega þættinum og er með viðburð á þriggja mánaða fresti, við erum með árshátíð, þrekmót einu sinni á ári og fleira, þannig að fólk hefur fleira að hlakka til en bara að mæta á æfingar,“ segir Birkir Vagn.
„Þjálfunin felst í því að það er aldrei sama æfingin, einn tími getur verið stöðvaþjálfun, svo næst eru þungar lyftingar, svo á þriðju æfingu eru cardio-æfingar, ég tel að þetta hafi átt þátt í hvað hópþjálfunin er vinsæl. Þetta er þriðja árið sem ég er með hana og sumir hafa verið með frá byrjun og aldrei farið tvisvar á sömu æfingu hjá mér,“ segir Birkir Vagn.
Sá yngsti í þjálfuninni er 18 ára og elsti 45 ára, þannig að aldursbilið er breitt, flestir eru þó um þrítugt. „Þetta eru erfiðar ægingar en samt er alls konar fólk að æfa, sem leggur hart að sér og nær árangri samkvæmt því. Þjálfunin hentar fyrir alla.“
Birgir Vagn þjálfar níu 15 manna hópa sem eru fullskipaðir mánuð eftir mánuð, síðan eru yfir 100 manns á biðlista. Þjálfunin hefur ekki verið auglýst fram að þessu, heldur er eingöngu um að ræða vitnisburð manna á milli, sem hefur leitt til þess að MGT-hópþjálfunin er jafn vinsæl og eftirsótt og raun ber vitni.
Birkir Vagn fer með iðkendur á útiæfingu, þegar verður leyfir, og sjálfur er hann hrifinn af að fara út að æfa. „Ég hef til dæmis farið á róluvöll og nýtt mér leiktækin sem eru þar.“
„Ég er með þá reglu að fólkið sem er hjá mér sé mætt þar til að ná árangri. Ef fólk er hjá mér „af því bara“, þá spyr ég viðkomandi hvort önnur þjálfun henti ekki betur fyrir hann. MGT á að snúast um að hreyfa sig, hafa gaman og ná árangri.“
Fá má frekari upplýsingar um MGT-hópþjálfunina í síma 864-6589 eða með því að senda tölvupóst á birkirvagn@hotmail.com.