Sumir eiga erfitt með að fara í rúmið á kvöldin eða út í daginn á morgnana án þess að fara í sturtu. En hversu oft þurfum við eiginlega að þrífa okkur? Getur verið að það sé of mikið að fara í sturtu einu sinni á dag. Það virðist nefnilega vera.
Stephen Scumack, prófessor og húðsjúkdómalæknir við Australasian College of Dermatologists, er þeirrar skoðunar að við ættum bara að fara í sturtu eða bað þegar við virkilega þurfum þess.
„Það er í raun bara á síðustu 50 eða 60 árum að hugmyndin um daglegar baðferðir varð útbreidd. Það hefur í raun meira að gera með félagslegan þrýsting eða raunverulega þörf,“ segir Stephen. Krafa samfélagsins, ef svo má að orði komast, sé á þá leið að við eigum að lykta vel.
Hann bætir við að daglegar sturtu- eða baðferðir með sápu geti gert það að verkum að ójafnvægi komist á starfsemi líkamans. Þannig framleiði líkaminn náttúruleg efni sem eiga að vernda húðfrumurnar en ítrekaðar sturtuferðir geti gert húðina og þar með líkamann útsettari fyrir sýkingum.
Stephen segir að engin viðmið séu beinlínis í gildi um hversu oft við eigum að baða okkur. Hann segir þó, eins og að framan greinir, að við eigum bara að fara í sturtu þegar við þurfum þess og í flestum tilvikum sé það ekki á hverjum einasta degi.