Mikilvægt að foreldrar hugi að þessu
Árið 1994 var blásið til herferðar í Bandaríkjunum sem miðaði að því hvetja mæður – og feður vitanlega – til að láta ungbörn sín sofa á bakinu. Þetta var talið geta komið að gagni í baráttunni gegn ungbarna- og vöggudauða.
Þessi herferð, Back to Sleep, virðist hafa skilað tilætluðum árangri því samkvæmt rannsóknum sem framkvæmdar voru fjölgaði þeim börnum sem sváfu á bakinu úr 10 prósentum í 78 prósent á næstu tíu árum á eftir. Og tíðni ungbarna- og vöggudauða minnkaði um 53 prósent.
En samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem birtust í tímaritinu Pediatrics virðist vera þörf á öðru viðlíka átaki og ráðist var í árið 1994. Rannsóknin náði til 3.300 mæðra og voru þær spurðar að því í hvaða stellingu börn þeirra sváfu. Niðurstöðurnar ollu talsverðum vonbrigðum því aðeins 43,7 prósent mæðra létu börn sín alltaf sofa á bakinu.
Niðurstöðurnar sýndu að 77,3 prósent mæðra létu börn sín „undir venjulegum kringumstæðum“ sofa á bakinu. Með öðrum orðum var það ekki regla hjá þeim.
Samkvæmt umfjöllun CNN, sem fjallar um niðurstöðurnar, höfðu þær mæður sem ekki létu börn sín sofa á bakinu mestar áhyggjur af köfnunarhættu. Þá töldu mæðurnar að börnunum liði betur í annarri stöðu en á bakinu.
Í umfjöllun um svefn ungbarna á maganum eða bakinu sem nálgast má á vef Doktor.is kemur fram að rannsóknir á undanförnum árum hafi bent til þess að samband væri á milli svefnstellingar ungbarna og vöggudauða. Niðurstöðurnar eru þær að það er öruggara fyrir barnið að sofa á bakinu. Mælt sé með því að láta kornabörn sofa á bakinu á stífri dýnu.