Ekki hika við að stíga á vigtina
Stundum er því haldið fram að þeir sem vilja léttast ættu að forðast það eins og heitan eldinn að stíga á baðvigtina. Það geti virkað fráhrindandi að sjá sömu tölu tvo, jafnvel þrjá daga í röð.
Samkvæmt niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem vísindamenn við Drexel University og University of Pennsylvania framkvæmdu er þetta þó ekki alveg sannleikanum samkvæmt. Það getur þvert á móti hjálpað fólki að léttast að stíga á vigtina á hverjum einasta degi.
Þrjú hundruð konur tóku þátt í rannsókninni en í frétt Independent, sem fjallar um niðurstöðurnar, kemur fram að konurnar hafi verið af öllum stærðum og gerðum. Allar áttu það þó sameiginlegt að vera ekki í neinu sérstöku átaki sem miðaði að því að léttast.
Konurnar voru spurðar að því hversu oft þær vigtuðu sig og í kjölfarið voru teknar niður upplýsingar um líkamsþyngdarstuðul þeirra (e. body mass index), en stuðullinn er reiknaður út frá líkamsþyngd og hæð og notaður sem nokkurskonar mælikvarði á holdafar fólks. Þó stuðullinn hafi sína kosti og galla þykir hann gefa sæmilega mynd af líkamsfitu og hættu á sjúkdómum.
Líkamsþyngdarstuðullinn var tekinn í byrjun rannsóknarinnar, aftur eftir sex mánuði og í þriðja sinn eftir að tvö ár voru liðin. Niðurstöðurnar voru þær að konur sem vigtuðu sig á hverjum degi höfðu lægri líkamsþyngdarstuðul að tveimur árum liðnum en þær sem vigtuðu sig ekki á hverjum degi.
Meghan Butryn, ein þeirra sem kom að rannsókninni, segir að það geti þjónað ágætum tilgangi að vigta sig á hverjum degi. „Það gefur manni innblástur um að halda sig við hollt mataræði og heilbrigðan lífsstíl. Það gefur manni vísbendingar um hvað er gagnlegt þegar kemur að þyngdartapi og hvað er ekki gagnlegt.“
Meghan tekur fram að þó að tengsl virðist vera á milli þyngdartaps og hversu oft fólk stígur á vigtina sé ekki hægt að fullyrða það með óyggjandi hætti.