Erna Kristín skoðaði snjallsímanotkun kvenna á fertugsaldri – Umræðan oft neikvæð
„Ég hafði lesið alls kyns fræðigreinar í náminu og sá að sjónum er lítið beint að fullorðnu fólki. Það er alltaf verið að skoða símanotkun krakka og unglinga. Mér fannst því tilvalið að skoða hegðun fullorðinna,“ segir Erna Kristín Kristjánsdóttir sem skoðaði snjallsímanotkun kvenna í meistaraprófsritgerð sinni í fjölmiðla- og boðskiptafræðum; Böl eða blessun: viðhorf og umfang snjallsímanotkunar kvenna í kringum fertugt.
Erna Kristín ræddi við sex konur á aldrinum 39–45 ára sem allar eru mæður og starfa allar innan grunnskólanna. „Þær nota símana mikið en notkunin er ekki endilega gagnslaus. Þær nota símana til að sinna vinnu, athuga með tómstundir barna, skipuleggja félagsskap og þess háttar en eru einnig í leikjum en þá oftast ekki nema þær séu í bið eða hafi dauða stund,“ segir Erna Kristín sem segir konurnar sem hún ræddi við einnig nota samfélagsmiðlana mikið. „Þær nota Snapchat, eru á Facebook og nota Messenger í samskiptum. Facebook er augljóslega notað til að halda sambandi við fólk sem þær myndu annars ekki vera í tengslum við en það sem kom mér á óvart er hvað þær nota Facebook mikið til að sinna vinnunni.“
„Því er oft haldið fram að það hangi allir í símanum, fólk kunni sig ekki og að notkunin sé orðin of mikil“
Erna Kristín ákvað að skoða hópinn, mæður í grunnskólum, þar sem umræða innan þess hóps um snjallsímanotkun barna og unglinga sé mikil. „Því er oft haldið fram að það hangi allir í símanum, fólk kunni sig ekki og að notkunin sé orðin of mikil. Mig langaði að kanna hvort það væri rétt. Mögulega er þessi hópur meðvitaðri um eigin snjallsímanotkun þar sem áhyggjur og umræða um notkun barna og unglinga getur verið mikil og dramatísk innan hópsins,“ segir hún en bætir við að niðurstaðan hafi verið sú að notkunin sé mikil en ekki endilega gagnslaus. „Allar konurnar sem ég ræddi við gengust við ábyrgð sinni og gerðu sér grein fyrir að það er fullorðið fólk sem setur viðmiðið. Þær lýstu allar yfir einhverjum áhyggjur en sáu einnig allar gagnsemina og hvernig síminn getur nýst í skólanum. Við viljum oft stökkva á neikvæða vagninn í umræðunni en það er margt jákvætt þarna líka, okkur þarf bara að takast að finna meðalveginn.“
Erna Kristín segir flestar konurnar kunna á tæknina sem snjallsíminn býður upp á. „Þær vildu þó, allar nema ein, meina að þær væru mjög seinar til að tileinka sér bæði Facebook og Snapchat. Hins vegar virðast þær nota tæknina af fullum krafti eftir að hafa kynnt sér hana,“ segir Erna Kristín og bætir við að það hafi verið áberandi að konurnar væru að réttlæta snjallsímanotkun sína. „Og það er í samræmi við umræðuna í þjóðfélaginu. Hún getur verið ansi neikvæð. Við vitum hins vegar ekki við hvað við ættum að miða. Hvað er ásættanleg notkun? Líkt og ég hafði lesið í rannsóknum komst ég að því að símanotkun tengist vana. Við tökum upp símann þegar við erum á biðstofu, þegar það koma auglýsingar í sjónvarpinu eða þegar við komum heim úr vinnunni og setjumst í sófann. Jafnvel líka þegar það er dauð stund á kaffistofunni.“
Sjálf viðurkennir Erna Kristín að nota sinn snjallsíma umtalsvert. „Það er ástæða fyrir því að það kviknaði á þessari peru. Ég nota símann mikið en þar sem ég hef verið í námi undanfarið vil ég meina að ég sé meira í afþreyingunni en konurnar sem ég ræddi við. Ég held að ég muni nota símann meira til gagns eftir að ég fer að vinna.“
En gæti hún hugsað sér lífið án snjallsíma? „Ég gæti það sennilega en ég er ekki viss um að ég myndi vilja það. Mikið af mínum samskiptum fer fram í gegnum Messenger og svo nota ég Facebook til að halda tengslum við gamla skólafélaga og ættingja. Snjallsíminn auðveldar ýmislegt og hefur í för með sér mikil þægindi. Maður verður samt að kunna sér hóf og setja reglur og ekki bara fyrir börnin. Líkt og ein konan sem ég talaði við sagði; það erum við fullorðna fólkið sem kaupum símana handa börnunum og veitum netaðgengi. Það er alltaf hægt að bölsótast út í börnin, en við verðum að gera okkur grein fyrir að það erum við sem veitum aðgengið.“