Þetta þurfa allir karlar að lesa
Niðurstöður nýrrar rannsóknar, sem birtust í tímaritinu Evolution & Human Behavior ættu að verða körlum innblástur um hvað þeir láta ofan í sig.
Samkvæmt niðurstöðunum laðast konur frekar að líkamslykt þeirra karla sem tileinka sér neyslu á mataræði sem að miklu leyti samanstendur af ávöxtum og grænmeti frekar en þeim sem tileinka sér neyslu á til dæmis kolvetnaríkri fæðu, til dæmis brauði.
Þá laðast konur frekar að líkamslykt þeirra karla sem neyta kjötmetis í ríkum mæli en þeirra sem neyta kolvetnaríkrar fæðu. Þeir sem borða ávexti og grænmeti eru eftir sem áður í bestu málunum hvað þetta varðar.
„Við höfum vitað það nokkuð lengi að líkamslykt er mikilvægur áhrifaþáttur þegar kemur að því hversu aðlaðandi einstaklingar eru, sérstaklega hjá konum,“ segir Ian Stephen, vísindamaður við Macquarie-háskólann í Ástralíu. Ian þessi hefur meðal annars lagt stund á rannsóknir í þróunar- og erfðafræðum en hann stóð fyrir umræddri rannsókn.
Rannsóknin var nokkuð ítarleg en meðal þess sem karlar, sem tóku þátt í rannsókninni, var að halda ítarlega dagbók yfir það hvað þeir borðuðu. Loks skelltu þeir sér í hreinan bol og fóru í ræktina. Að æfingu lokinni voru þær konur sem tóku þátt látnar finna lyktina af bolunum. Niðurstöðurnar voru ótvíræðar. Eftir því sem karlar innbyrtu meira af ávöxtum og grænmeti þeim mun betur lyktuðu þeir.