Ritstjóri Birtu er gríðarlegur bókaormur eins og vinir hennar vita og bækur eru alltaf bráðnauðsynlegar,
Jafnt hverdags sem og í ferðalagið. Birta pakkaði ofan í tösku nokkrum nýjum bókum til að taka með í ferðalagið, bæði íslenskum og þýddum, eftir nýja og reyndari höfunda, bækur sem ritstjórinn er búinn að lesa eða langar að lesa.
Ljótur leikur – Angela Marsons Breska lögreglukonan Kim Stone og undirmenn hennar eru tiltölulega ný í bókahillum landsins, en Ljótur leikur er önnur bókin sem kemur út á íslensku. Það er þó alveg tilvalið að kynnast Kim, því hér er um að ræða fantagóðar og vel skrifaðar glæpasögur um áhugaverðar persónur. Bækur sem gefa norsku þrillerunum ekkert eftir. Alls eru komnar út sex bækur um Kim og mun sú þriðja þýdd á íslensku koma út seinna á árinu.
Litla bakaríið við Strandgötu – Jenny Colgan Hér er byggt á sömu grunnuppskrift og í Chocolat eftir Joanne Harris, sem kvikmynduð var með Juliette Binoche og Johnny Depp í aðalhlutverkum. Nema hér er sögusviðið ekki súkkuilaðiverslun í frönsku þorpi, heldur bakarí í ensku sjávarþorpi. Í samanburðinum sigrar súkkulaðið, en ef honum er sleppt, þá er hér um að ræða ljúfa og krúttlega sumarlesningu, sem skilur kannski ekki mikið eftir sig, en er skemmtileg á meðan á henni stendur.
Eftirlýstur – Lee Child Töffarann Jack Reacher þarf ekkert að kynna fyrir aðdáendum. Hann er eins konar Chuck Norris, Schwarsenegger, má ekkert aumt sjá og ekkert brýtur á blanda hnoðað saman í sérstakan einfara. Bókin er sú tíunda sem kemur út á íslensku, en 22 bókin kemur út á frummálinu í nóvember. Spennutryllir eins og þeir gerast bestir.
Lífið á ísskápshurðinni – Alice Kuipers Lífið á ísskápshurðinni er fyrsta bók Kuipers og hefur hún unnið til fjölda ungmennaverðlauna og verið sett upp á sviði í London, Japan og Frakklandi. Sagan er saga mæðgna og sögð með minnismiðum og „post-it“ miðum móður og 15 ára gamallar dóttur hennar, skrifaðir fyrir og á meðan þær ganga í gegnum fjölskylduharmleik. Bók um ljúfsárt samband móður og dóttur sem hafa of lítinn tíma fyrir hvor aðra í önnum hverdagsins og þrátt fyrir að um sé að ræða ungmennabók (young adult) þá á bókin erindi við lesendur á öllum aldri.
Drekkingarhylur – Paula Hawkins Frumraun Hawkins, Konan í lestinni, seldist í bílförmum um allan heim, hlaut góðar viðtökur gagnrýnenda og mynd byggð á bókinni með Emily Blunt í aðalhlutverki kom á hvíta tjaldið 2016. Það var því spennandi að sjá næstu bók Hawkins og hvort henni myndi takast að standast væntingar lesenda sem gagnrýnenda. Aftur segir hún sögu konu sem tekst á við sorgaratburð og drauga fortíðar og ferst það vel úr hendi. Bókin er jafnvel betri en frumraunin.
Saga af hjónabandi – Geir Gulliksen Áleitin, opinská og beinskeytt bók um hjónaband sem klikkar. Ást, kynlíf og svik. Frábær bók fyrir alla í hjónabandi, á leið í það eða lausir úr slíku.
Flóttinn – Sandra Bergljót Clausen Önnur bókin í seríunni Hjartablóð. Serían er örlagasaga Magdalenu sem uppi er á 17. öld, bækurnar eru sjálfstæðar, en í Flóttanum kemur hún til Íslands. Sögulegu samhengi og menningarlegri arfleifð eru gerð góð skil, enda lagðist höfundur í mikla heimildarvinnu við skrif þeirra. Bækur sem minna á bókaflokkinn sívinsæla um Ísfólkið og er þriðja bókin í vinnslu.
Smáglæpir – Björn Halldórsson Frumraun ungs og óþekkts höfundar, sjö smásögur sem DV hefur áður skrifað um og gefið [góðan dóm](https://www.dv.is/menning/2017/7/19/meitladar-fyndnar-og-sarsaukafullar-sogur/). Smásöguformið er nauðsynlegur hluti í bókmenntum, enda ekki síður áskorun að segja lesendum sögu í knöppu formi, en í heilli skáldsögu. Björn skilar hér sjö áhugaverðum sögum, sem gerast í nútímanum í úthverfum Reykjavíkur og vert að fylgjast með hverju hann skilar næst til lesenda.
Hús tveggja fjölskyldna – Lynda Cohen Loigman Frumraun Loigman er heillandi fjölskyldusaga, sem fjallar um bræður sem eiga helming hvor um sig í fjölskyldufyrirtækinu og helming í tvíbýlishúsi í Brooklyn, þar sem þeir búa með konum sínum og börnum. Á yfirborðinu virðast aðstæður þeirra og efnahagur svipaður, en undir kraumar óánægja, öfund og leyndarmál. Frábær og áhugaverð frumraun.