Flestir sem hrifnir eru af pitsum þekkja hinn rómaða veitingastað Íslensku flatbökuna, að Bæjarlind 2 í Kópavogi. Staðurinn er þekktur fyrir hágæða eldbakaðar pitsur úr viðarofni. Í bland við veitingastaðinn hefur Íslenska flatbakan lengi sinnt veisluþjónustu en í sumar steig fyrirtækið nýtt skref á því sviði með hinum glæsilega Bökubíl sem hefur glatt marga á undanförnum vikum.
„Með Bökubílnum erum við annars vegar að bjóða upp á spennandi kost fyrir alls konar viðburði, stóra og smáa, og hins vegar viljum við bjóða íbúum úthverfanna upp á aukna þjónustu og þá upplifun að allt í einu sé kominn pitsustaður í nágrenni við þá,“ segir Valgeir Gunnlaugsson hjá Íslensku flatbökunni en nýlega lagði Bökubílinn á Seltjarnarnesi og vakti mikla lukku.
Eins og myndir með greininni bera með sér er Bökubíllinn glæsilegur í útliti og mikil prýði að honum hvar sem hann fer um og því skapar hann skemmtilega stemningu á þeim viðburðum þar sem boðið er upp á veitingar úr honum. Pitsurnar eru líka ferskar og í hæsta gæðaflokki:
„Við gerum engar málamiðlanir hvað gæðin snertir, við erum með eldofn í bílnum og erum ekki að breyta um eldunaraðferðir eða neitt slíkt. Þegar sóttar eru eða fengnar sendar pitsur í barnaafmæli eða starfsmannahóf þá þarf að flytja matinn og geyma einhverja stund í pappakössum, og við þetta tapast alltaf einhver gæði. Úr Bökubílnum kemur hins vegar allt rjúkandi heitt og brakandi ferskt,“ segir Valgeir.
Bökubíllinn er kostur sem hentar í alls konar viðburði af öllum stærðum. Hefur hann töluvert verið fenginn í brúðkaup í sumar og nú þegar eru byrjaðar pantanir í brúðkaup og fermingar á næsta ári. Þá eru sífellt fleiri fyrirtæki sem vilja gera vel við starfsfólk sitt öðru hverju farin að nýta sér þjónustu Bökubílsins og bjóða starfsfólki sínu upp á ferskar pitsur, eldbakaðar á staðnum, á góðviðrisdögum.
Sem fyrr setur nærvera Bökubílsins skemmtilegan svip á viðkomandi viðburð, er prýði í umhverfinu og skapar góða
stemningu:
„Það er til dæmis framundan hátíðin Kátt á Klambratúni og aðstandendurnir höfðu samband við okkur og sögðu: við verðum með hátíð hérna og það er pláss fyrir matarvagn, viljið þið koma? Jafnframt verðum við til dæmis á Októberfest sem haldið er á háskólasvæðinu á hverju hausti,“ segir Valgeir.
Á stórum hátíðum eru gjarnan seldar sneiðar út úr vagninum, þegar honum er lagt í úthverfin er boðið upp á vinsælustu pitsurnar af matseðli Íslensku flatbökunnar en þegar um einkasamkvæmi eins og til dæmis brúðkaup er að ræða er matseðillinn einfaldlega hannaður með óskir viðskiptavinarins í huga.
Til að fylgjast með staðsetningum Bökubílsins í úthverfum á næstunni er best að skoða vefsíðuna bokubillinn.is eða Facebook-síðu Bökubílsins. En til að panta Bökubílinn í samkvæmi eða á hátíð, eða fá nánari upplýsingar, er best að senda tölvupóst á netfangið flatbakan@flatbakan.is.
Smelltu hér til að skoða skemmtilegt myndband um Bökubílinn..