Ólafur Jóhannsson prestur ræddi um skilnaði á Útvarpi Sögu
„Sorgin er ekki bara að syrgja eitthvað sem maður missir heldur líka að syrgja eitthvað sem maður fékk ekki,“ segir Ólafur Jóhannsson, prestur í Grensáskirkju. Skilnaðir geta tekið mjög á fólk og bendir Ólafur á að fólk missi ekki bara tengsl við makann heldur einnig fjölskyldu hans og sameiginla vini.
Ólafur var gestur síðdegisútvarpsins á Útvarpi Sögu á föstudag.
„Það er náttúrulega mjög ósanngjarnt fyrir þann aðila sem er eftir og missir svona stóran hluta úr lífi sínu og missir náttúrulega líka tengsl við vini jafnvel. Oft er það þannig, því miður, að sameiginlegir vinir og kunningjar velja annan og slíta tengsl við hinn,“ sagði Ólafur og bætti við að vinirnir þyrðu jafnvel ekki að halda sambandi við báða aðila. Þeir séu jafnvel settir í þá stöðu að annar aðilinn ætlist til þess að þeir standi með sér. „Svo getur líka verið að fólk missi tengsl við hluta af börnum sínum. Það er mjög sorglegt líka.“
Í þættinum, sem var um klukkutími að lengd, ræddi Ólafur um margt, meðal annars dauðann og sorgina sem fylgir því að missa náinn maka. Hann sagðist hafa heyrt frá fólki sem hafi jafnvel hugsað með sér að það vildi frekar að viðkomandi, fyrrverandi maki það er, væri látinn. Að því leytinu geti skilnaðir verið þungbærari en andlát.
„Þá er hægt að setja einhvern endapunkt. En þetta getur verið erfitt og mjög flókið. Sorgin er ekki bara að syrgja eitthvað sem maður missir heldur líka að syrgja eitthvað sem maður fékk ekki. Og eftir skilnað til dæmis getur vel verið að minnsta kosti annar makinn sé að syrgja það líf sem hann hafði væntingar um að þau ættu saman framundan sem varð ekkert úr. Syrgja það að þau geta ekki notið þess að vera afi og amma saman til dæmis eða fara saman til benidorm í ellinni eða Kanaríeyja. Það er allt þetta sem varð aldrei,“ sagði Ólafur en viðtalið við hann má nálgast í heild sinni hér.
Á vef doktor.is má lesa um ástarsorg. Þar kemur fram að stundum verði sorgin svo mikil að erfitt er að afbera hana, misjafnt sé hvað það taki langan tíma að komast yfir sorg, það fari bæði eftir einstaklingum og aðstæðum. Að sama skapi er bent á það að ekkert er óyfirstíganlegt. Meðfylgjandi eru nokkur góð ráð:
1.) Ekki einangra þig með tilfinningar þínar. Leitaðu til vina sem er þægilegt að tala við.
2.) Það er nauðsynlegt að tala um hlutina til þess að sitja ekki föst/fastur í eymd.
3.) Einnig er gott að skrifa um hlutina (þótt það sé fyrir ruslatunnuna). Margir lagatextar og ljóð fjalla um ástarsorg svo þú værir ekki fyrst(ur) til að skrifa um þær tilfinningar.
4.) Reyndu að rífa þig upp (þótt erfitt sé) og gera eitthvað til að dreifa huganum, farðu í bíó frekar en að liggja heima uppi í rúmi.
5.) Byggðu sjálfa(n) þig upp með því að gera eitthvað fyrir þig, nú er tími til að fara á hárgreiðslustofu, láta dekra við sig, hreyfa sig, hugleiða eða gera eitthvað annað sem þér finnst uppbyggjandi (áfengis og vímuefnaneysla flokkast ekki undir uppbyggjandi athafnir).