Ester er nýútskrifuð úr kjólasaumi
Útskriftarnemar fataiðnbrautar Tækniskólans héldu nýlega útskriftarsýningu sína. Margt var um manninn og nóg af flíkunum á sýningunni og greinilegt að ekki er skortur á efnilegum hönnuðum í íslenskum fataiðnaði. Tíu nemar útskrifast núna í ár og einn þeirra, Ester Sigurðardóttir, segir góða möguleika fyrir nema að fá vinnu við fagið.
„Þetta er í annað sinn sem skólinn heldur svona útskriftarsýningu, sú fyrsta var í fyrra,“ segir Ester, en á sýningunni má bæði finna útskriftarverkefni nemenda og afrakstur af vinnu þeirra á námsárunum.
Alls útskrifuðust tíu nemar í ár, sex úr kjólasaumi og fjórir úr klæðskurði. Undanfarin ár hafa að meðaltali tíu nemar útskrifast árlega. Námið tekur fjögur ár á hvorri braut og margir bæta við sig einu ári og útskrifast úr báðum fögum. „Sjálf útskrifaðist ég úr klæðskeranum fyrir tveimur árum og var síðan að útskrifast úr kjólasauminum núna,“ segir Ester.
Hún segir góða atvinnumöguleika við fagið hér heima, iðngreinar eru sívaxandi og fólk að leita eftir fagfólki. „Flestir af þeim sem útskrifast hafa síðustu ár vinna nú við fagið. Það er eftirspurn eftir fólki sem kann að sauma og fagfólki. Hægt er að fá vinnu í leikhúsum, óperunni, stofna eigin atvinnurekstur, við sérsaum á bæði herra- og kvenfatnaði, svo eru brúðarkjólar mjög vinsælir,“ segir Ester. Sem dæmi nefnir hún saumastofu sem er að sauma sjö brúðarkjóla fyrir einn dag núna í sumar og með beiðni um tæpa 30 til viðbótar, sem hún hefur þurft að vísa frá.
„Við erum ekki að hanna fötin sem slík. Það má líkja þessu við byggingu húss, þar sem að koma arkitekt, verkfræðingur og smiður, við erum verkfræðingurinn og smiðurinn,“ segir Ester. Nemarnir taka starfsnám og tók Ester sitt í Svíþjóð hjá Röjk Superwear. Í dag starfar hún hjá Ice Wear. „Ég var að byrja í síðustu viku og er að starfa við vöruþróun, í samstarfi við hönnuði,“ segir Ester, nýútskrifuð og bjartsýn á framtíðina í fataiðnaðinum.