fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
FókusKynning

Þess vegna er strembið að losna við síðustu aukakílóin

Næringarfræðingur bendir á algeng vandamál og gefur lausnirnar við þeim

Einar Þór Sigurðsson
Fimmtudaginn 30. mars 2017 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mörgum þeirra sem hafa náð góðum árangri í baráttu við offitu hættir til að eiga erfitt með að losna við síðustu aukakílóin til að komast í kjörþyngd. Oft eru það þessi síðustu 5–10 kíló sem fólk á erfitt með. Næringarfræðingurinn Jessica Levinson, stofnandi hinnar vinsælu Nutritioulicious-vefsíðu, gaf lesendum Men‘s Health góð ráð hvað þetta varðar fyrir skemmstu þar sem hún tók fyrir nokkur vandamál, sem fólk stendur frammi fyrir, og lausnir á þeim.

Mynd: Shutterstock

Ekki hætta að borða

Vandamál: Að sögn Levinson hættir sumum til að borða allt of lítið, jafnvel minna en 1.200 hitaeiningar á dag, til að ná lokamarkmiði sínu. Hún segir að með þessu geri fólk slæm mistök því líkaminn geti brugðist þannig við að hann hægi verulega á grunnefnaskiptum sínum, brennslunni með öðrum orðum, til að spara orkuna í líkamanum. Þá fer líkaminn að ganga á vöðva líkamans sem orkugjafa sem kann ekki góðri lukku að stýra.

Lausn: Levinson hvetur fólk til að fara varlega og taka ekki of stór skref í einu. Reyndu að forðast mjög hitaeiningaríka fæðu en veldu þess í stað próteinríka fæðu og grænmeti sem dæmi. Passaðu að líkaminn fái það sem hann þarf.


„Hollur“ matur er stundum óhollur

Vandamál: Stundum er fæða, sem markaðssett er sem hollustuvara, full af sykri og næringarsnauðum hitaeiningum. Þetta á til dæmis við um orkudrykki og svokölluð próteinstykki í sumum tilfellum. „Viðbættur sykur í fæðu getur kallað fram aukna sykurlöngun,“ segir hún.

Lausn: Kynntu þér hvað er í fæðunni sem þú lætur ofan í þig. Ef fæðan inniheldur meira en 10 grömm af sykri í hverjum skammti skaltu fá þér eitthvað annað.


Ekki forðast alla fitu

Vandamál: Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða litla fitu hafa meiri matarlyst en til dæmis þeir sem aðhyllast lágkolvetnalífsstíl. Samt er því oft haldið fram að fólk þurfi að forðast fitu eins og heitan eldinn. „Fita er mjög mikilvæg vegna þess að hún hægir á meltingunni og heldur aftur af hækkun blóðsykurs,“ segir Levinson sem bætir við að fituríkari fæða haldi manni söddum lengur en ella. Það gerir að verkum að maður er síður líklegur til að borða of mikið.

Lausn: Levinson mælir með að 20 til 35 prósent þeirra hitaeininga sem fólk neytir komi úr fitu, eða milli 40 og 60 grömm. Levinson hvetur fólk þó til að sækja í hollari fitu sem fæst til dæmis úr laxi, hnetum, fræjum og avókadó sem dæmi.


## Fáðu nægan svefn

Vandamál:Rannsóknir hafa leitt í ljós að þeir sem sofa ekki nóg borði að jafnaði 385 hitaeiningum meira daginn eftir. Og þegar þú ert svo nálægt markmiði þínu getur það gert gæfumuninn þegar til lengri tíma er litið.

Lausn: Þótt það geti stundum verið erfitt, til dæmis þegar lítil börn eru í spilinu, segir Levinson að fólk eigi að gera það að forgangsatriði að fá 7 til 9 tíma svefn á hverri nóttu. Þá hvetur Levinson fólk til að taka ekki síma, iPad eða tölvu með sér upp í rúm áður en farið er að sofa.


Fáðu þér vatn

Vandamál: Levinson segir að auðvelt sé að rugla saman hungurtilfinningu og þorsta. Þegar þú finnur fyrir svengd gæti líkaminn í raun verið að kalla á vatn.

Lausn: Levinson mælir með að fólk prófi að fá sér vatnsglas þegar hungrið sverfur að. Í rannsókn frá árinu 2015 kom í ljós að þeir sem þjáðust af offitu innbyrtu mun færri hitaeiningar en samanburðarhópurinn ef þeir drukku tæpan hálfan lítra af vatni hálftíma fyrir máltíð. „Að drekka vatn getur hjálpað manni að þekkja betur þau skilaboð sem líkaminn sendir og komast að raun um hvort maður sé í raun og veru svangur eða þyrstur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni