Hannyrðabúðin, fagþekking og mikið úrval
Fátt er betra en að versla þar sem starfsfólkið þekkir vel vörurnar sem eru á boðstólum og getur gaukað að þér góðum ráðum. Hannyrðabúðin á Selfossi er einmitt slík verslun. Hún var opnuð árið 1968 í Hafnarfirði og er nú búin að vera á Selfossi í tæp 5 ár. Alda Sigurðardóttir og Þóra Þórarinsdóttir eru snillingarnir í Hannyrðabúðinni á Selfossi, en þær eru báðar aldar upp við ríka handavinnuhefð. ,,Okkur finnst skipta miklu máli að geta boðið fjölbreytt úrval af garni. Við erum með garn frá flestum íslensku byrgjunum og flytjum mikið inn af garni frá mörgum ólíkum framleiðendum, alls yfir 160 tegundir. Þannig tryggjum við bæði breitt vöruval og gott verð. Margir kúnnar grípa andann á lofti þegar þeir koma inn til okkar þar sem verslunin virðist ekki stór séð utan frá en hún leynir á sér,” segir Alda.
“Við opnuðum nýlega vefverslun þar sem sjá má megnið af því garni sem við flytjum inn og einnig upplýsingar um annað sem við bjóðum upp á. Kúnnarnir okkar eru af öllu landinu og utan þess og þeir eru þakklátir fyrir þessa þjónustu. Við sendum vörur hvert sem er. Þeir sem geta komið til okkar geta líka hæglega skoðað og kynnt sér vöruúrvalið á vefsíðunni áður. Það er meira að segja hægt að leita að garni eftir prjónastærð, þannig að ef þú ert með uppskrift fyrir prjóna nr. 3 – 4 velur þú það sem leitarorð og færð upp síðu þar sem allt garn fyrir þessa prjónastærð sést.“ segir Alda.
Hannyrðabúðin birtir handavinnuuppskrift aðra hvora viku í Dagskránni, fréttablaði sem dreift er í hús á Suðurlandi. Um er að ræða uppskriftir fyrir prjón og hekl, en einnig fyrir útsaum og fleira sem tengist handavinnu. Nýlega birtist einmitt hundraðasta uppskiftin. “Það eru margir sem fylgjast með uppskriftunum okkar og koma gjarnan í kjölfarið að kaupa efni í verkefnin. Á Facebook-síðunni má sjá myndir af öllum þessu handavinnuverkefnum. Ótrúlega margir safna þeim en við erum líka með þær allar í búðinni og seljum gegn vægu verði.” Segir Alda.
Það er augljóst að það þarf ekki að vera verkefnalaus eftir heimsókn í Hannyrðabúðina á netinu eða á Selfossi!
Malabrigo lace er dásamleg fínspunnin merinóull af sauðfé sem ræktað er í norðurhéruðum Uruguay. Garnið er handlitað og fæst í fjölda fallegra litbrigða. Við gátum ómögulega gert upp við okkur hvort við ættum að hekla eða prjóna sjal úr þessu eðalgarni, svo við ákváðum að gera hvoru tveggja. Þetta reyndist vera mjög skemmtilegt verkefni. Garnið er lungamjúkt og sjalið er dálítið tígullaga svo það fellur saman og verður tvöfalt við hálsinn þar sem þörf fyrir hlýju er mest. Þetta lag setur líka skemmtilegan svip á bakið.
Efni: 2 hespur Malabrigo lace, ein í hvorum lit. heklunál no 4,0, 60 sm hringprjónn no 4,5, prjónamerki.
Sjalið er unnið þannig að til skiptis eru prjónaðir 10 garðar (20 umferðir) með lit A og svo heklaðar mis margar umf stuðlar með lit B.
Lykkjum er fækkað í annari hverri umferð í garðaprjónshlutanum, að undanskilinni fyrstu umferðinni (fækkað í umferðum 3, 5,7, 9, 11, 13, 15, 17 og 19). Eins er það í hekluðu umferðunum, þ.e. lykkjum er fækkað í oddatöluumferðum, en þó ekki í fyrstu umferð.
Fitjið upp 241 l með lit A og prjónið 1 garða (1 garði eru tvær umferðir). Setjið prjónamerki eftir lykkju 119 og eftir lykkju 122 (miðja sjalsins). Í annarri hverri umferð eru lykkja 3 og 4 prjónaðar saman og síðustu tvær l fyrir prjónamerkið, fyrstu 2 eftir prjónamerkið eru prjónaðar saman þannig að fyrri lykkjan er tekin óprjónuð og seinni lykkjunni steypt yfir hana og 4. síðasta lykkjan á prjóninum er einnig tekin óprjónuð og 3. síðustu steypt yfir. Þannig er fækkað áfram allt sjalið.
Þegar komnir eru 10 garðar er skipt yfir í lit B og heklaður 1 stuðull í hverja l garðaprjónsins. Í næstu umferð er 1 st heklaður í hvern st. Í þriðju umferð eru 3. og 4. st heklaðir saman, og síðustu 2 st fyrir framan prjónamerkið, svo 3 st og aftur 2 st saman og loks eru 3. og 4. síðasti stuðull umferðar heklaðir saman. Heklið alls 6 umferðir stuðla.
Næst er prjónað garðaprjón og er fyrsta umferðin gerð þannig að ein lykkja er tekin upp frá hverjum stuðli. Prjónið 10 garða og munið eftir úrtökuumferðunum. Að 10 görðum loknum eru heklaðar 4 umf með stuðlum. Því næst 10 garðar, svo 6 umf stuðlar þá 10 garðar svo 4 umf stuðlar og loks 10 garðar.
Loks er unninn kantur utan um sjalið. Byrjið á því að hekla stuðlaumferð þannig að 1 stuðull er heklaður í hvern garða, og 2 í hvern stuðul og einn í hverja lykkju á langhliðinni. Heklið aðra umferð stuðla, 1 í hvern stuðul fyrri umferðar. Prjónið því næst 6 garða (1 l í hvern stuðul). Loks eru heklaðir 1 st 1 ll í hverja lykkju allan hringinn og svo lokaumferð með 1 st í hvern st og í hverja ll. Gangið frá endum, skolið sjalið úr mildri sápu og leggið til þerris.
Uppskrift: Þóra Þórarinsdóttir
Hannyrðabúðin er staðsett að Eyravegi 23, 800 Selfossi.
Sími: 555-1314.
Opnunartími: 11.00 – 18.00 virka daga og 11.00 – 14.00 á laugardögum.
Nánari upplýsingar má nálgast á vefverslun Hannyrðabúðarinnar og á Facebook-síðunni okkar.