Hágæða suðrænn matur á Caruso
Veitingastaðurinn Caruso ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum, enda afar vinsæll og virtur veitingastaður í höfuðborginni. Caruso hefur verið rekinn af hjónunum José Garcia og Þrúði Sjöfn í fimmtán ár og hafa þau ætíð lagt mikið upp úr góðu og fersku hráefni og ljúffengum mat með Miðjarðarhafsívafi. Caruso býður upp á forrétti og salöt, girnilegar pítsur og pastarétti, kjöt, fisk og ýmsa sjávarrétti og ekki má gleyma ljúfum eftirréttum. Andrúmsloftið á Caruso er rómantískt og notalegt og á föstudags- og laugardagskvöldum er gestum boðið upp á ljúfa gítartóna. Á Caruso er hægt að ganga að góðum mat, hlýlegri þjónustu og huggulegu andrúmslofti vísu og þess vegna koma gestirnir aftur og aftur.
„Við höfum alltaf boðið upp á hádegisverð hér á Caruso og ætíð verið með góð hádegistilboð. Þá er matur, bjór, vín, gos og kaffi allt á lækkuðu verði. Yfirleitt er frekar mikið að gera hjá okkur í hádeginu og snögg og góð þjónusta, enda hefur fólk oft tiltekinn tímaramma til að komast í hádegismat úr vinnunni. Við tökum þá mið af því og höfum valið saman léttari og einfaldari rétti af kvöldseðlinum,“ segir Þrúður. Þó svo að um hádegistilboð sé að ræða þá er alltaf vel útilátið á diskana og það fer enginn svangur út af Caruso.
Á hádegisréttaseðlinum eru að auki tvö tveggja rétta tilboð. Þá er um að ræða súpu dagsins og fisk dagsins, eða lambafillet. Svo býðst að bæta við eftirrétti gegn vægu gjaldi og gera þetta að þriggja rétta málsverði. Í hádeginu fást flatbökur með tveimur áleggstegundum og pítsuhálfmáni á frábæru verði. Með öllum keyptum hádegisréttum fylgir nýbakað baguette-brauð sem er bakað á staðnum og borið fram með hvítlauksdressingu.
Nýlega flutti Caruso í endurreist sögulegt hús í miðbænum sem var upphaflega byggt árið 1801. Stærsti hluti byggingarinnar, fyrir utan arininn, eyðilagðist í eldsvoða árið 2007 og má segja að nýja húsið hafi verið byggt í kringum arininn sem stóð uppi eftir eldsvoðann. „Húsið er nokkuð minna en það sem við vorum í áður, en afskaplega huggulegt og notalegt. Það er hálfpartinn eins og húsnæðið umvefji mann og staðsetningin er náttúrlega frábær,“ segir Þrúður.
Caruso er til húsa að Austurstræti 22, 101 Reykjavík.
Pantaðu borð í síma: 562-7335 eða í tölvupósti: caruso@caruso.is
Opnunartími:
Mánudagar–fimmtudagar: 11.30–22.30
Föstudaga: 11.30–23.30
Laugardaga: 12.00–23.30
Sunnudaga: 17.00–22.30
Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu Caruso og á Facebook-síðunni.