VON Mathús: Mikil gæði og sanngjarnt verð
Veitingahúsið VON Mathús var opnað af þeim Einari Hjaltasyni og Kristjönu Þuru í Hafnarfirði árið 2015 og hefur reksturinn gengið vonum framar. Einar er sannkallaður reynslubolti og margrómaður matreiðslumaður sem útskrifaðist af Grillinu á Hótel Sögu og kom að opnun háklassa veitingastaðar í London sem hlaut Michelin-stjörnu. Kristjana hefur einnig verið viðloðandi veitinga- og hótelgeirann í um tíu ár og svo er hún Hafnfirðingur í húð og hár. „Við erum nú rétt rúmlega eins árs og förum bara stækkandi,“ segir Kristjana.
Matseðill VON Mathúss á kvöldin og í hádeginu er alla jafna stuttur og árstíðabundinn og tekur ávallt mið af því sem er ferskast hverju sinni, hvort sem um fisk eða grænmeti er að ræða. Matseðlinum er svo breytt á 2–3 mánaða fresti og allt hráefni er í mestu mögulegu gæðum. Fiskinn kaupir VON Mathús frá Hafinu og kjötið frá SS og því er hvort tveggja ætíð íslenskt hráefni. „Núna í vetur fást langan og þorskurinn til dæmis mjög fersk og því er matseðillinn okkar í samræmi við það. Á meðan eru bláskelin, steinbíturinn og rauðsprettan yfirleitt betri á sumrin,“ segir Kristjana. Ásamt sérstökum barnaréttum á matseðlinum er hægt að fá alla rétti í skammtastærðum fyrir börn. Einnig er hægt að fá grænmetis- eða veganrétti bæði í aðalrétt eða í samsettum seðlum.
Um helgar fæst ekta bröns í hádeginu hvort sem um er að ræða hádegisverðarplatta eða fjölskylduhlaðborð. Að auki er boðið upp á vöfflur með ýmsu spennandi meðlæti og er laxavafflan langvinsælust á brönsseðilinum, að sögn Kristjönu. Vöffludeigið er vegan og því ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Einnig er hægt að fá fisk eða kjúkling dagsins. Helgarbröns væri varla fullkomnaður ef ekki væri boðið upp á mímósur eða dásamlega súrsætt límonaði. Helgarbröns er hægt að fá á laugardögum og sunnudögum frá 11–14 og mælt er með borðapöntun.
Alla þriðjudaga–föstudaga, milli kl. 11.30–14.00 er boðið upp á súpu, salat, ferskan fisk og kjötrétt, sem auglýst er daglega á Facebook-síðunni. „Við erum mjög virk á samfélagsmiðlunum okkar og þar er alltaf hægt að sjá myndir af rétti dagsins,“ segir Kristjana. Þá er boðið upp á það ferskasta sem fæst hverju sinni og tekur matseðillinn mið af því.
Sumir telja að Hafnarfjörður sé mjög langt frá miðborginni og því ekki besti staðurinn til þess að opna veitingastað, en Kristjana og Einar eru því algerlega ósammála. „Það er ekki nema tíu mínútna akstur, korter í versta falli, frá Vesturbænum og inn í Hafnarfjörð. Hér eru líka ætíð næg bílastæði og Hafnarfjörðurinn er að auki svo fallegur og notalegur staður. Á VON Mathúsi er fallegt útsýni yfir smábátahöfnina, sanngjarnt verð og mikil gæði,“ segir Kristjana.
VON Mathús er til húsa að Strandgötu 75, 220 Hafnarfirði.
Opnunartími: Alla daga nema mánudaga frá 11.30–14.00 og 17.30–21.00.
Sími: 583-6000
Email: info@vonmathus.is
Nánari upplýsingar má nálgast á vefsíðu VON Mathúss og á Facebook-síðunni. Einnig eru þau með Instagram-síðuna VON Mathús&Bar.