Konráð Sigurðsson, oftast kallaður Konni, hefur sett á markaðinn jóladagatal sem byggir á aðalpersónu vinsæls barnabókaflokks sem hann hefur skrifað, Jóa kassa.
„Mér fannst vanta íslenskt dagatal á markaðinn þannig ég hafði samband við Freyju sælgætisgerð af því mínir uppáhaldsmolar eru í hátíðarpakkanum frá þeim. Þannig þróaðist þetta. Ég leitaði svo að aðila sem gæti búið til svona hérna heima en því miður voru þeir allt of dýrir. Ég leitaði því út fyrir landsteinana og fann aðila til að prenta kassann og búa til plastbakkann fyrir mig,“ segir Konni.
Konni hefur gefið út bækur síðan árið 2010 og eru Jói kassi bækurnar orðnar níu talsins. Sex eru ævintýrasögur og þrjár eru jólalitabækur sem eru styttri sögur með stærri texta. Þær fást í flestum Penninn/Eymundsson búðum.
„Af því ég á Jóa kassa fyrir fannst mér langbest að nota hann enda mörg börn í samfélaginu sem þekkja hann, hann er búinn að vera til hér í sjö ár. Freyja tók vel í þetta og ég kaupi nammið beint af þeim,“ segir Konni.
„Maður sá alltaf þetta hefðbundna jólakraðak en þarna er kominn karakter sem er íslenskur og samt er þetta líka jólalegt, það er þarna snjókarl utan á og svo framvegis,“ segir Konni, en eins og myndirnar bera með sér er dagatalið bæði líflegt og fallegt.
„Við förum aðeins lengra með þetta. Setjum íslenskan borða á eitt hornið þannig að þetta sé íslensk framleiðsla því fyrirtækið mitt, Xprent, framleiðir kassana í rauninni þó að þetta sé prentað erlendis. Aftan á eru úrklippufígúrur fyrir börnin til að klippa út á aðfangadag þegar þau eru búin að opna síðasta gluggann. Og á meðan þau eru að bíða spennt eftir að klára dagatalið þá er jólaleikur aftan á dagatalinu. Í gegnum hann er hægt að komast í pott og vinna til ýmissa verðlauna,“ segir Konni.
Jói kassi dagatalið er til sölu í flestum Hagkaupsverslunum, í öllum Iceland búðunum og í fríhöfninni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það er hægt að kynna sér þetta betur á Facebooksíðu Jóa Kassa.