Út er komið smásagnasafnið Afleiðingar eftir Ágúst Borgþór Sverrisson. Sögurnar eru fjölbreyttar að efni en fjalla gjarnan um þær stundir þegar mannfólkið þarf að horfast í augu við afleiðingar gjörða sinna. Sumar sögurnar gerast á því augnabliki þegar óvænt rof verður á vanagangi tilverunnar og hið ófyrirsjáanlega heldur innreið sín í líf persónanna.
Margskonar fólk stígur fram á þessum blaðsíðum. Verslunarstjóri í raftækjaverslun stígur örlagaríkt skref sem vekur eftirfarandi spurningu: Hvenær svíkur maður sjálfan sig og hvenær svíkur maður aðra? Miðaldra bókaútgefandi er við það að missa mannorðið vegna framkomu sinnar við unga skáldkonu. Mæðgin fara í kirkjugarðinn rétt fyrir aðfangadagskvöld á biluðum bíl því það verður alltaf að loga ljós á leiðum ástvina um jólin. Ung stúlka verður leiksoppur kerfisins og karlmanna á sjöunda áratug síðustu aldar. Markaðsfulltrúi um fertugt, nýfráskilinn, sest í stól hjá drukknum hárgreiðslumanni. Uppákomurnar eru margvíslegar og áhugaverðar.
Ágúst Borgþór á fjölbreyttan ritferil að baki. Afleiðingar er sjötta smásagnasafn hans en hann hefur auk þess sent frá sér þrjár skáldsögur. Síðasta bók hans var spennusagan Inn í myrkrið sem kom út árið 2015 og fékk ágætar viðtökur.
Ágúst Borgþór starfar sem blaðamaður og hefur vakið athygli fyrir snörp fréttaskrif á vef DV.