Hnúður í brjósti er ekki eina einkenni krabbameins – Vitundarvakning á meðal kvenna
Samsett mynd af skemmdum sítrónum í eggjabakka er þungamiðja vitundarvakningar um brjóstakrabbamein, sem vakið hefur mikla athygli á samfélagsmiðlum að undanförnu. Baráttan fer fram undir myllumerkinu #KnowYourLemons er notað í baráttunni en þar eru konur hvattar til að leita læknis ef einhver af tólf einkennum gera vart við sig í brjóstum kvenna.
Markmiðið er að vekja konur til vitundar um að hnúður í brjósti er ekki eina einkenni brjóstakrabbameins. Telegraph og fleiri erlendir miðlar greina frá þessu.
„Sumar breytingar eru eðlilegar, aðrar geta stafað af tíðum eða sýkingum,“ kemur fram á síðu góðgerðasamtakanna Worldwide Breast Cancer, sem stendur að baki vitundarvakningunni. „Ef einkennin hverfa ekki skaltu vera skynsöm og leita til læknis.“ Herferðin er hugmynd Corrine Beaumont, bresks hönnuðar, sem missti báðar ömmur sínar úr brjóstakrabbameini þegar þær voru 40 og 62 ára gamlar. Hún sagði að sítrónur væru minna feimnismál en brjóst og því væru þær notaðar til að sýna einkennin.
Einkennin sem notuð eru í herferðinni eru (í lauslegri þýðingu): Aukinn þéttleiki, hola, viðkvæm húð, roði eða hiti, torkennilegur vökvi, dæld, hnúður, stækkandi æðar, inndregin geirvarta, ný lögun, appelsínuhúð eða falið æxli.