Starfar í dag sem einkaþjálfari og fyrirsæta
Mathilde Broberg, 22 ára kona í Árósum í Danmörku, ákvað að taka til í sínum málum þegar hún var orðin rúm 120 kíló. Þetta var fyrir fjórum árum og þegar Mathilde hóf lífsstílsbreytinguna óraði hana væntanlega ekki fyrir því að hún ætti dag einn eftir að starfa sem einkaþjálfari og starfa sem fyrirsæta.
Staðreyndin er engu að síður sú að Mathilde starfar sem fyrirsæta og einkaþjálfari þar sem hún miðlar reynslu sinni til viðskiptavina sem eru í sömu sporum og hún var í. Hún sagði sögu sína í viðtali við Mail Online fyrir skemmstu og þar rifjaði hún meðal annars upp augnablikið þegar hún ákvað breyta um lífsstíl.
Aðferðin sem Mathilde beitti hefur vakið athygli en næringarfræðingur segir að hún geti verið varasöm.
Mathilde hafði í raun alla sína ævi verið í ofþyngd og segir hún að þetta hafi háð henni þegar hún var barn. Skólafélagar hennar gerðu grín að henni og þar af leiðandi hélt hún sig mikið til hlés. Það var svo áður en Mathilde fór í menntaskóla að hún ákvað að segja hingað og ekki lengra.
„Ég fékk bara nóg og fannst eins og ég væri föst í líkama mínum. Ég hafði aldrei á ævinni verið grönn og fannst eins og verkefnið væri ómögulegt,“ segir hún. Svo reyndist aldeilis ekki vera og með viljann að vopni og eitt skref í einu tókst Mathilde að ná markmiði sínu.
Það var árið 2012, árið sem Mathilde varð 17 ára, að breytingin hófst fyrir alvöru. Þá var hún rúm 120 kíló og var BMI-líkamsþyngdarstuðull hennar 41. Hún hóf að stunda ræktina af kappi og æfði sex sinnum í viku.
Mathilde tók mataræðið einnig í gegn, mataræði sem áður hafði einkennst af ruslfæði og gosdrykkjum. Hún segist í dag telja að þegar mest lét hafi hún innbyrt 3.500 hitaeiningar á dag. Maginn var stór og það tók hana tíma að venjast því að borða minna í einu. Hún brá á það ráð að borða aldrei stærri skammt af mat en komst fyrir í lófa hennar. Þá notaði hún teskeið til að borða þessa tilteknu matarskammta, þannig tók hún í raun jafnmarga bita og áður nema í minni skömmtum. Þá snéri hún baki við öllu ruslfæði, sleppti því að borða kökur, brauð, pasta og kartöfluflögur svo dæmi séu tekin.
Mathilde viðurkennir að á þessu tímabili, meðan lífsstílsbreytingin var í gangi, hafi hún oft fundið til svengdar og jafnvel stundað aðeins of ákafar æfingar. Hún léttst mikið fyrst um sinn en hefur bætt á sig að nýju rúmum 10 kílóum í formi vöðva og fitu. Í dag vegur hún 70 kíló og kveðst vera í góðu formi líkamlega og andlega.
Yahoo News ræddi við Shiru Lenchewski, næringarfræðing í Los Angeles, um þessa leið sem Mathilde fór og segir Shira að hún geti verið varasöm. „Ég hef alltaf sagt það að matur á að gefa þér næringu og ánægju. Í hreinskilni sagt þá held ég að þú getir ekki lifað hamingjusömu og heilbrigðu lífi án beggja þessara þátta,“ segir hún og bætir við að best sé að borða rólega og gefa sér nægan tíma til þess.
„Það getur verið sniðugt að mæla þann mat sem þú innbyrðir með lófanum, en aftur á móti er mjög mikilvægt að þú tryggir að þú fáir nægan fjölda af hitaeiningum og hlustir á skilaboðin sem líkaminn sendir þér. Þó það sé skynsamlegt að halda aftur af sér þegar sætindi og óhollusta er annars vegar þá mæli ég aldrei með of róttækum aðgerðum.“