Stjörnufiskur búinn að koma Færeyingum á bragðið
Harðfiskurinn má segja að sé hálfgert þjóðartákn Íslendinga. Hann er sannkallað ofurfæði því hann er ekki bara meinhollur heldur einnig bragðgóður og stórskemmtilegt að borða hann. Stjörnufiskur er gamalgróið fyrirtæki og stofnað árið 1988. Ekki alls fyrir löngu, eða í janúar 2016, tóku félagarnir Guðni Már Þorsteinsson og Þorlákur Grímur Halldórsson við rekstri þess. Stjörnufiskur sérhæfir sig annars vegar í framleiðslu á harðfiski og svo bitafiski, sem er harðfiskur verkaður í handhægum bitum. “Harðfiskurinn er frábær í millimál á meðan bitafiskurinn kemur algerlega í staðinn fyrir snakk og annars konar nasl,” segir Guðni. Báðar vörurnar eru gerðar úr íslenskum þorski sem keyptur er af markaði og beint af bátnum sem Þorlákur gerir út á Grindavík. Framleiðslan er sömuleiðis öll staðsett þar.
“Við seljum harðfiskinn okkar í hinar ýmsu matvörubúðir svo sem Bónus og ICELAND matvörukeðjuna. Svo erum við að flytja út vörur á færeyskan markað. Færeyingar eru vitlausir í þurrkaðan fisk og kaupa töluvert af okkur,” segir Guðni. Stjörnufiskur hyggst auka framleiðslu sína og leggja net sín út á fleiri erlenda markaði í framtíðinni, enda með frábæra vöru í höndunum. “Eftir að við fórum alfarið í að verka þorskinn jókst salan töluvert hjá okkur og það er mín trú að þorskurinn henti einfaldlega best í harðfiskinn,” segir Guðni.
Fylgstu nánar með Stjörnufiski á facebooksíðu Stjörnufisks.
Hægt er að hafa samband við Stjörnufisk í síma 8976302 eða með því að senda tölvupóst í stjornufiskur@simnet.is