Netverslunin Daria.is
„Við leitumst við að vera með flott merki á góðu verði og reynum líka meðvitað að halda verðinu niðri með lítilli álagningu,“ segir Jóhanna Ósk Þorsteinsdóttir, eigandi netverslunarinnar Daria.is, en þar eru seldar mjög vinsælar snyrti- og húðvörur auk snyrtispegla sem hafa slegið í gegn.
„Stækkanlegir snyrtispeglar með ljósi seldust mjög mikið hjá okkur fyrir jólin og núna erum við að fá fleiri tegundir af þeim,“ segir Jóhanna. Meðal vinsælla snyrtivörumerkja í versluninni eru „make-up“ vörur frá The Balm og LA Splash. „Við erum líka með leirmaska sem hafa slegið í gegn og heita Muddy Body.“
Daria.is sendir vörur hvert á land sem er og líka til útlanda. Enginn sendingarkostnaður er fyrir pakka sem komast inn um bréfalúgur en fyrir stærri pakka þarf að greiða sendingarkostnað, en ábyrgðarpóstur með rekjanlegu númeri kostar 590 krónur. En sé keypt fyrir 15.000 krónur eða meira fellur sendingarkostnaður alltaf niður.
Daria.is er til húsa að Hafnargötu 26 í Reykjanesbæ og þar er rekin verslun á staðnum auk vefverslunarinnar. Jóhanna og eiginmaður hennar sjá um rekstur fyrirtækisins en auk þeirra er ein starfskona. Verslunin að Hafnargötu 26 er opin virka daga frá 13 til 18 og 12 til 16 á laugardögum. Þar er bæði hægt að skoða og prófa vörurnar.
„Við erum einmitt á leið til Los Angeles núna til að taka þátt í stærstu snyrtivörusýningu í heimi – Imats,“ segir Jóhanna sem alltaf er opin fyrir því að bjóða viðskiptavinum upp á nýjar og áhugaverðar vörur. Það er því um að gera fyrir áhugasama að fylgjast með á vefnum daria.is eða kíkja í verslunina í Hafnargötunni, því reglulega eru spennandi nýjungar í boði.