„Það má kannski segja að í þessu felist ákveðin viðvörun,“ segir Stefan Zwanzger sem er líklega einn fróðasti maður heims um skemmtigarða. Stefan þessi ferðast um heim allan og prófar mismunandi garða, en á undanförnum tíu árum hefur hann heimsótt 150 slíka.
Fyrir skemmstu birtust tvær myndir sem hann tók í skemmtigarði einum í borginni Shenzhen í Kína. Myndirnar eru í eðli sínu líkar; þær eru teknar frá sama sjónarhorni og sýna báðar nokkurn veginn svipaðan fjölda gesta. Myndirnar eru þó teknar með sjö ára millibili; sú fyrri árið 2010 en sú seinni fyrr á þessu ári.
Þó myndirnar séu í eðli sínu líkar gætu þær vart verið ólíkari, að minnsta kosti ef tekið er tillit til þess hvað fólkið á myndinni er að gera. Fólkið á fyrri myndinni fylgist með öðrum gestum, með bros á vör, á meðan fólkið á seinni myndinni er upptekið í símanum sínum, nær allir sem einn. Og enginn brosir.
„Þegar þú sérð fólk í skemmtigarði með símann fyrir framan andlitið geturðu verið nokkuð viss um að það geri það einnig þegar það borðar með fjölskyldunni, fer í rúmið, á klósettið og hver veit, kannski í sturtunni?“ segir Stefan um myndirnar tvær sem vakið hafa talsverða athygli.
„Það liggur í hlutarins eðli að skemmtigarðar eru til að njóta þeirra, þeir eiga að grípa athygli manns og heilla mann,“ segir Stefan og bætir við að þetta sé ekki bara svona í Kína. „Þessi tilhneiging fólks er út um allan heim þó við sjáum þetta meira í þróuðum hagkerfum Asíu. Við sjáum þetta samt líka í Evrópu og í Ameríku,“ segir Stefan.
Í umfjöllun CNN, sem fjallar um málið, er vísað í bók eftir Jean Twenge, sálfræðiprófessor við San Diego State University í Bandaríkjunum. Í bókinni, iGen: Why Today‘s Super-Connected Kids Are Growing Up Less Rebellious, More Tolerant, Less Happy – and Completely Unprepared for Adulthood, bendir Twenge á að frá árinu 2010 hefur tíðni þunglyndis og sjálfsvígsa meðal ungs fólks farið stigvaxandi. Þá hafi almenn ánægja ungs fólks með lífið minnkað. Hugsanlega er það eitthvað sem endurspeglast í myndum Stefans.