Anna Ólöf breytti um áherslur og gefur út Heilsudagbókin þín
Anna Ólöf Sveinbjörnsdóttir fékk blóðtappa í bæði lungu fyrir tveimur árum, í kjölfarið endurskoðaði hún margt í sínu lífi. Eitt af því var að láta hugmynd sem hún hafði gengið lengi með verða að veruleika, heilsudagbók, sem Anna Ólöf nefnir Heilsudagbókin mín.
„Heilsudagbókin mín er hugmynd sem ég gekk með lengi. Að gefa út einfalda, markmiðasetta heilsudagbók, þar sem áherslan er á heildrænan árangur, ekki bara að missa kíló,“ segir Anna Ólöf. „Heilsudagbókin mín er mín nálgun á bættar lífsvenjur heilt yfir, þar sem lögð er áhersla á hreyfingu, mataræði og andlega þáttinn. Ég legg áherslu á jákvæðni og þakklæti í bókinni.“
Fyrir tveimur árum síðan fékk Anna Ólöf blóðtappa í bæði lungu. „Ég leit aldrei á mig sem sjúkling og var fljót að jafna mig, en þetta fékk mig til að endurskoða hvað það er sem skiptir mig máli í lífinu. Ég breytti um áherslur í lífinu og í bókinni legg ég áherslu á að fólk fari inn á við og hugsi hvað það langar að fá úr lífinu, hvað gerir þig hamingjusaman.“
„Heilsudagbókin mín felst í því að eigandi bókarinnar gerir samning við sjálfan sig og óskalista, hvað gerir viðkomandi hamingjusaman,“ segir Anna Ólöf.
Heilsudagbókin er hefðbundin markmiðasetning til sex vikna, gerð er vikuáætlun í einu og eigandi bókarinnar skráir niður hvað hann ætlar að gera fyrir líkama og sál í hverri viku. „Það geta allir hreyft sig og við ættum að gera það á hverjum degi,“ segir Anna Ólöf. „Síðan eru litlu vikumarkmiðin eitthvað sem við vitum að gerir okkur gott, eins og til dæmis að fara fyrr að sofa, drekka vatn og þessháttar. Hugmyndin er að setja lítil einföld markmið sem verða svo að vana.“
Hluti af vikuáætluninni er reitur sem heitir „Lífsspeki vikunnar,“ og í sýnishorni af bókinni á Facebooksíðu hennar er lífsspekin „Veittu því athygli hvernig þú talar og hugsar um þig.“
Svo þegar vikuáætlun er tilbúin, tekur við síða fyrir hvern dag vikunnar. „Ég hef fengið jákvæð viðbrögð við „Hvað gerði ég gott í dag“ reitnum,“ segir Anna Ólöf.
„Ég geri þetta verkfæri, bókina, fyrir mig og það er ekkert þarna sem er nýtt undir sólinni. Bókin hjálpar mér til að halda betur utan um mitt líf.“
Anna Ólöf sótti um styrk til Mosfellsbæjar fyrir útgáfu bókarinnar og hlaut þróunar- og nýsköpunarviðurkenningu.
Hún segir að styrkurinn hafi verið hvatning til að gefa bókina út og hennar von sé að bókin geti hjálpað einhverjum. „Það sem mér þótti best var að ég uppgötvaði að fleirum líkaði hugmyndin.“
Anna Ólöf vinnur við hönnun og því voru henni hæg heimatökin að hanna sjálf útlit bókarinnar, en fólki finnst útlit hennar smart.
„Ég er búin að fá ótrúleg viðbrögð við bókinni, ég hefði aldrei trúað því. Ég er búin að fá fyrirspurnir frá starfsmannastjórum fyrirtækja meðal annars,“ segir Anna Ólöf, sem þegar er komin með hugmyndir um að útfæra bókina frekar. „Ég er bæði að skoða að útbúa bók sem er 12 vikur og líka að aðlaga hana að afrekskrökkum.“
Heilsudagbókin mín fæst á samnefndri like-síðu á Facebook, en stefnt er að því að koma henni í sölu á völdum sölustöðum.