Notar sprautur til að skapa listaverk
Kimberly Joy Magbanua er hjúkrunarfræðingur að atvinnu, en í frístundum sínum skapar hún listaverk. Og þó að efniviðurinn sé hefðbundinn: akrýllitir og strigi, þá eru verkfærin sem hún notar frekar óvenjuleg.
Magbanua, sem er 24 ára, starfar á sjúkrahúsi á Filipseyjum. Hún er listræn frá unga aldri og segir að foreldrar hennar hafi keypt handa henni liti og annað til að teikna og skapa, í stað leikfanga. Þegar þau lásu fyrir hana á kvöldin, teiknuðu þau samhliða sögupersónur og annað á blað. Á fullorðinsárum byrjaði hún að teikna og notaði penna og blað.
„Mig langaði hinsvegar alltaf til að prófa að mála á striga og þegar ég var á einni vaktinni að gefa sjúklingi lyfin hans, flaug þessi í kollinn á mér, að nota sprautur í stað pensla.“
Hún er þrjá til sex klukkutíma með hverja mynd og þó að það hljómi einfalt, þá notar hún ákveðna tækni. Mismunandi stórar sprautur eftir því hversu fíngerðar myndirnar eru. Og stundum á málningin til að stíflast og þá þarf að byrja upp á nýtt og skipta um verkfæri.
„Listin er mitt þægindasvæði. Listin nærir sálu mína,“ segir Magbanua og listaverkin hennar eru bæði falleg og einstök vegna þeirra aðferðar sem hún notar.