Og hitta þannig vini þína oftar
Það er margt sem er nauðsynlegt í lífinu og tvennt af því er vinir og matur og þegar hægt er að sameina þetta tvennt þá á maður svo sannarlega góða stund í vændum.
Kelley Powell skrifaði skemmtilega grein um matarboð þar sem hún lýsir því að þrátt fyrir að henni finnist gaman að fá vini sína í mat, þá hafi það verið orðin hálfgerð kvöð að bjóða vinunum heim og halda matarboð. Það að þurfa að undirbúa glæsilegt matarboð með öllu sem því fylgir hafi verið of mikið samhliða því að eiga mann, þrjú börn, reka heimili, stunda vinnu og svo framvegis.
Það sem hér fer á eftir er frásögn hennar um hvernig hún uppgötvaði „Glatað matarboð“ og fór að halda þau oftar:
„Ég elska að fá vini mína í heimsókn, en með þrjú börn, stóra rithöfundadrauma og endalaust ferli í að undirbúa og ganga frá morgunmat, snarli, hádegismat, snarli, kvöldmat, snarli, þá fór hugmyndin um matarboð fyrir vinina að verða meiri kvöð og vinna, heldur en frítíminn, hvíldin frá daglega amstrinu og skemmtunin sem mig langaði í og vantaði.
Ég er ekki tuskuóð eða fullkomnunarsinni að neinu leyti, en að fá vini í heimsókn þýðir engu að síður að ég þarf að þrífa slóð í gegnum dótahrúguna og allskonar sköpunarverk barna minna sem fylla stofugólfið, brjóta saman þvottafjallið sem umlykur sófann og finna upptök undarlegu lyktarinnar sem er í húsinu. Ég fór að verða pirruð þegar ég undirbjó komu gesta, byrjaði að skipa börnunum fyrir að taka upp fötin þeirra og þrífa klósettsetuna.
Ég vissi samt að þessi viðbrögð mín eru fáranleg, vinir mínir eru að koma til að hitta mig, ekki húsið mitt. Þeir myndu alveg skilja tússið á borðstofuborðinu og að rúmin hjá börnunum eru óumbúin, en ég vildi samt státa mig af fallegu og snyrtilegu heimili, en ekki drasli og sýklum.
Það var þá sem ég uppgötvaði „Glatað matarboð.“
Ég hef þekkt Lauru eins lengi og ég man eftir mér. Við höfum báðar flutt oft og fyrir nokkrum árum bjuggum við í sömu borg, með drengi á sama aldri. Það lá því beinast við að við myndum hittast oftar, sem við gerðum ekki. Laura flutti síðan í burtu, í smábæ og tveimur árum síðar þegar hún flutti aftur í borgina, sagði hún mér að í smábænum þá mætti fólk bara heim til hvors annars. Það var ekkert formlegt boð, enginn undirbúningur, ekkert stress og í matinn var bara það sem var til í ísskápnum hverju sinni. „Prófum þetta,“ sagði hún.
Eiginmaðurinn sagði mér að ég gæti ekki gert þetta. „Þú verður að þrífa og græja mat alveg fram á síðustu mínútu,“ sagði hann við mig. Ég lofaði að ég myndi ekki gera það og börnin sáu til þess að ég myndi standa við loforðið. Nokkrum mínútum fyrir fyrsta Glataða matarboðið kom sjö ára gamall sonur okkar inn og gekk í gegnum húsið á grútskítugum skóm.
„Þetta er allt í góðu lagi,“ sagði ég við manninn minn, sem skellihló.
Níu ára gömul dóttir okkar tilkynnti mér að hún væri að fara að byrja á einhverju risa föndurverkefni á miðju stofugólfinu og dró fram liti, lím og fleira í stóra hrúgu. „Ekkert mál,“ sagði ég og saup á fyrsta vínglasinu.
Sonurinn sjö ára og sá fjögurra kláruðu loks núninginn sem hafði verið á milli þeirra allan daginn, með því að fara í slag. Þá var dyrabjöllunni hringt og synirnir tróðust fram hjá og yfir hvorn annan til að sjá hver yrði á undan að opna hurðina. Laura og hennar fjölskylda voru mætt.
Ég viðurkenni alveg að í fyrsta Glataða matarboðinu þá þurfti ég mjög oft að draga andann djúpt, þó að ég hafi elskað að verja tíma með Lauru og hennar fjölskyldu. Síðan þá höfum við haldið mörg Glötuð matarboð saman. Eftirminnilegasta boðið var líklega þegar Laura festist í bakinu og lá föst í sófanum allt kvöldið. Í stað þess að hætta við að bjóða okkur heim, lá hún í sófanum og kallaði fyrirskipanir til okkar, á meðan hertókum við eldhúsið hennar og lasagnað úr frystinum.
1) Engin heimilisstörf mega eiga sér stað fyrir boðið.
2) Matseðillinn á að vera einfaldur og það má ekki fara sér ferð í búð til að versla inn.
3) Þú verður að vera í þeim fötum sem þú varst í fyrr um daginn.
4) Það má ekki færa gestgjafanum gjafir.
5) Þú verður að þykjast vera hissa þegar gestirnir mæta „óvænt“ (þessi liður er valkvæður).
Við Laura brjótum stundum regluna um Glatað matarboð og höfum fínni matarboð eða förum út að borða, en staðreyndin er sú að við hittumst mun oftar í dag en við gerðum áður og það er ekkert glatað við það.
Glatað matarboð snýst um að leggja áherslu á það sem skiptir máli: samveruna, að hitta vini og fjölskyldu og verja tíma með þeim.