Hvernig ætlar þú að skrifa þitt?
Á sviðinu og í myndum setja leikarar upp hinar ýmsu grímur, enda felst það í starfinu. Sami leikarinn getur bjargað heiminum í einu hlutverki og í því næsta verið skúrkurinn. Í þessu felst starfið og margir þeirra eru ótrúlega góðir í því sem þeir gera.
En margir eru líka ótrúlega góðir í þessu í daglega lífinu. Ein gríma er notuð heima við og önnur út á við, ein gríma er notuð við upphaf kynna og hún svo felld þegar á líður og hið sanna andlit og innræti kemur í ljós, og svona mætti lengi telja. Við setjum okkur í hin ýmsu hlutverk, í vinnu og einkalífi og stundum er jafnvel orðið erfitt að sjá hvað er „karakterinn“ og hvað er hinn raunverulegi einstaklingur.
Með hækkandi aldri verður manni ljóst hvað þetta hlýtur að vera þreytandi vinna, það nennir enginn, hvorki leikarar né aðrir, að vera í vinnunni allan sólarhringinn og maður hlýtur að verða hálfþreyttur að halda sífellt grímunni uppi og einhverju leikriti. Með grímu lyga og undanbragða þarf líka að fylgja gott minni og hæfileikar til að „halda mörgum boltum á lofti.“ Sífelldur leikur að grímum getur líka verið dýrkeyptur fyrir hamingju og sálarheill.
Hættum þessu leikriti í lífinu. Leyfum fólki bara að sjá hvernig við erum, stundum æðisleg, stundum í fýlu, en oftast bara venjuleg og ágæt. Leyfum fólki að kynnast okkur eins og við erum, í stað þess að setja sífellt upp einhver leikrit og þykjast vera annar en við erum. Leyfum okkur að vera skrýtin, skemmtileg, furðuleg og frábær og komum á sama tíma vel fram við aðra, sýnum fólki kurteisi, vináttu og virðingu.
„Það var ekki eins og ég hefði handrit lífsins skrifað allt í bók“ – Sálin hans Jóns míns
Það er engin ástæða til að óttast það að skilja grímuna eftir heima. Það eru allar líkur á að það sé einn þarna úti, jafnvel heill hópur einstaklinga með eigin galla sem falla eins og flís við rass við þína. Lífið er betra og skemmtilegra með öðrum, einhverjum sem skilur mann og tekur manni alveg eins og maður er og elskar mann bæði á góðum dögum og svo þeim sem eru síður góðir.
Komdu þér út á meðal fólks, sumarið er tíminn til að sýna sig og sjá aðra, njóta lífsins og leika sér. Það er svo mikið um að vera alls staðar og fjöldi viðburða til að skoða og upplifa. Skrifaðu handritið í þínu lífi alla daga. Lífið er eins og bók, sumir kaflar eru daprir, aðrir eru fullir af gleði og sumir eru æsispennandi, en ef þú heldur ekki áfram þá veistu aldrei hvað næsti kafli inniheldur handa þér.
Tjaldið mun falla að lokum hjá okkur öllum og það er mun betra að uppskera viðbrögð og klapp meðan á sýningunni stendur, en þegar henni er löngu lokið. Hvernig mun þitt handrit verða?
Sumarkveðja, Ragna
ragna@dv.is