Ef þú vilt helst af öllu drekka kaffið þitt svart eru líkur á að þú tilheyrir hópi fólks sem vill drekka eitthvað bragðmikið. Þú gætir líka tilheyrt þeim hópi fólks sem hugsar um heilsuna og sleppir þar af leiðandi mjólk,sykri eða kaffirjóma. Svo gætirðu tilheyrt enn öðrum hópi fólks, þeim sem eru siðblindir.
Þetta er samkvæmt athyglisverðum niðurstöðum sem birtust nýlega í hinu ritrýnda riti Appetite og breska blaðið Independent fjallar um. Samkvæmt niðurstöðunum er fylgni milli þeirra sem drekka svart kaffi og þeirra sem eru siðblindir eða haldnir kvalalosta.
Í rannsókninni, sem framkvæmd var af Innsbruck-háskóla í Austurríki og náði til þúsund einstaklinga, var meðal annars spurt um neyslumynstur þátttakenda auk þess sem þátttakendur voru spurðir um allt milli himins og jarðar, einkum persónuleikaeinkenni. Í stuttu máli leiddu niðurstöðurnar í ljós að þeir sem sækja í biturt bragð, til dæmis svart kaffi, séu líklegri en aðrir til að vera haldnir siðblindu eða kvalalosta.
Þó að niðurstöðurnar bendi til þess að tengsl séu þarna á milli þurfa þeir sem sækja í svart kaffi líklega ekki að hafa miklar áhyggjur.