Klukkutími á viku nóg til að draga verulega úr líkum
Öll viljum við lifa heilbrigðu og heilsuhraustu lífi þar til við verðum gömul, en því miður geta ýmsir sjúkdómar, misalvarlegir, gert okkur lífið leitt á þeirri vegferð sem lífið er.
Nýleg rannsókn hollenskra vísindamanna leiðir í ljós að hægt er að minnka líkurnar stórlega á að fá sjúkdóma sem í daglegu tali kallast lífsstílssjúkdómar. Þetta eru til dæmis sykursýki 2, offita og of hár blóþrýstingur. Samkvæmt rannsókninni má minnka líkurnar á að fá þessa sjúkdóma á lífsleiðinni um 29 prósent, tæplega þriðjung, með því að stunda lyftingaþjálfun (e. Resistance exercise) í eina klukkustund á viku.
Samkvæmt sömu niðurstöðum er ein klukkustund nóg og var ávinningurinn af meiri lyftingaæfingum enginn hjá þeim sem stunduðu meiri eða erfiðari æfingar.
Niðurstöður rannsóknarinnar þykja býsna jákvæðar enda benda þær til þess að hægt sé að draga úr tilfellum svokallaðrar efnaskiptavillu (e. metabolic syndrome) sem hrjáir um fjórðung fullorðinna einstaklinga í Bretlandi og Bandaríkjunum. Á vefnum Mataræði.is er efnaskiptavilla sögð vera hugtak sem notað er til að lýsa ákveðna líkamsástandi sem fylgir aukin hætta á hjarta- og æðasjúkdómum auk sykursýki af tegund 2.
„Þetta er fyrsta rannsóknin sem sýnir fram á jákvæð áhrif lyftinga á þá sem þjást af efnaskiptavillu,“ segir Esmée Bakker, vísindamaður við Radboud University í Hollandi, en rannsóknin náði til rúmlega sjö þúsund einstaklinga. Hann segir að niðurstöðurnar bendi til þess að klukkutími af lyftingum skili bestum árangri, til dæmis tvær 30 mínútna æfingar í viku.
Á vef Medical News Today má lesa nánar um niðurstöður rannsóknarinnar