„Þetta er sérhönnuð vefmyndavél sem skýtur myndir á sex linsur og þrjá infra-rauða skynjara. Hún tekur myndir í 360 gráðum, er færð um rýmið og tekur myndir á hverjum punkti sem um einn og hálfur metri er á milli. Úr þessu býr hún til þrívíddarmódel og skreytir módelið að innan með myndum sem hún tekur. Þetta þýðir að þú getur í rauninni skoðað eignina að innan í þrívídd, þú getur séð inn í horn og upp í loft. Þannig færðu tilfinningu fyrir rýminu. Síðan er hægt að taka þetta lengra – inn í sýndarveruleika. Þeir sem eiga margmiðlunargleraugu – svokölluð VR-gleraugu – geta skellt þeim á sig og skoðað íbúðina eins og þeir séu á staðnum.“
Þetta segir Björn Þórir Sigurðsson hjá Fasteignasölu Reykjavíkur en umrætt vefskoðunartæki sem fyrirtækið býður upp er klárlega byltingarkennd nýjung. Björn segir:
„Svona eru fasteignir farnar að seljast úti í heimi. Núna er þessi tækni komin til Íslands og við erum enn sem komið er eina fasteignasalan sem býður upp á þetta. Auðvitað jafnast ekkert á við að vera á staðnum en þessi tækni getur hjálpað þeim sem eru í fasteignaleit að útiloka þær eignir sem ekki koma til greina og það hentar sérstaklega þeim sem búa í nokkurri fjarlægð frá viðkomandi eignum.“
Við þetta má bæta að það er líka einfaldlega skemmtilegra að skoða fasteignir á þennan hátt en eingöngu með því að fletta ljósmyndum á vefnum. En vélin gerir fleira en að veita þrívíddarskoðun á eignum: „Vélin mælir allt með infrarauðum geislum og því fáum við líka upp málin á íbúðinni. Út frá þessum upplýsingum teiknar vélin uppdrátt af eigninni sem sést á vefsíðunni okkar. Þetta kemur sér sérstaklega vel ef búið er að breyta íbúð frá upprunalegri
teikningu því þarna fæst alveg ný teikning af eigninni eins og hún er í dag,“ segir Björn.
Sem fyrr segir er upplifunin enn sterkari með þrívíddarskoðun með VR-gleraugum en þau fylgja sumum snjallsímum auk sem þau eru seld í raftækjaverslunum. Leiðbeiningar um notkun þrívíddargleraugna má fá hér.
Hér er gott dæmi um nýja eign í sölu sem hægt er að skoða með þessum hætti í tölvu eða snjalltæki.
Á eignaskránni á vef Fasteignasölu Reykjavíkur er síðan hægt að smella á ljósmynd eignar og fara inn á vefsvæði hennar. Þar eru rauðletraðir valmöguleikar um að skoða myndina í þrívídd í tölvu eða öðru snjalltæki – eða í sýndarveruleika með þrívíddargleraugum. Hér er gott dæmi.
Við hvetjum lesendur til að spreyta sig á þessu. Þessi nýstárlega fjarskoðun á fasteignum er bæði skemmtileg og gagnleg.