Ray og Tracy ætluðu að gifta sig næsta sumar – Það breyttist þegar Ray greindist með krabbamein
Hinn 63 ára gamli Ray Kershaw kvæntist ástinni í lífi sínu á laugardag. Hin heppna heitir Tracy Brooks og er 45 ára. Parið hafði ætlað að ganga í hjónaband á Tenerife næsta sumar en þær áætlanir fóru út um þúfur þegar Ray greindist með krabbamein í mars síðastliðnum.
Krabbameinið sem Ray greindist með er í smáþörmunum og er því miður ólæknanlegt. Heilsu hans hafði hrakað mikið undanfarnar vikur og telja læknar að Ray eigi aðeins nokkra daga eftir ólifaða. Þökk sé góðmennsku ókunnugra, einstaklinga sem Ray og Tracy þekkja ekki neitt, tókst þeim að ganga í hjónaband síðastliðinn laugardag.
Haldin var lítil veisla á Springhill-sjúkrahúsinu í Rochdale á Stór-Manchester svæðinu á Englandi á laugardag. Óhætt er að segja að skipulagningin hafi ekki tekið langan tíma. Til stóð að halda brúðkaupið 2. júní næstkomandi en vegna versnandi heilsu Ray var brúðkaupinu flýtt fram á laugardaginn 20. maí. Innan við sólarhring eftir að skipulagning brúðkaupsins hófst voru þau orðin hjón.
Það voru góðgerðarsamtökin Gift of a Wedding og hópur sjálfboðaliða sem skipulagði og hafði veg og vanda að athöfninni sem allir helstu fjölmiðlar Bretlandseyja hafa fjallað um. Samtökin leituðu á náðir góðhjartaðra borgara um að leggja samtökunum lið og er óhætt að segja að margir hafi svarað kallinu með það að markmiði að gera daginn eftirminnilegan fyrir brúðhjónin.
Melissa King, brúðarmær og góð vinkona hjónanna, sagði við breska fjölmiðla um helgina að Ray og Trachy hefðu vitað að krabbameinið myndi draga Ray til dauða. Þess vegna hefðu þau viljað flýta athöfninni og þau séu óendanlega þakklát öllu því góða fólki sem kom að skipulagningunni. „Ég veit að Tracy og Ray geta ekki þakkað öllum sem komu að þessu, enda var það ótrúlegur fjöldi sem kom að þessu.“