Fólkið sem nýtur sérstakrar velgengni deilir með fólki hvað það gerir til að ná sem bestum svefni
Það getur verið þrautin þyngri að koma öllu sem þarf að gera í verk á þeim 24 klukkustundum sem eru í sólarhringnum. Flest höfum við ríkum skyldum að gegna; vinnan ratar stundum heim, maki og börn þurfa athygli og þvotturinn gengur ekki frá sér sjálfur, svo örfá dæmi séu tekin. Þegar mikið er að gera eiga margir það til að fara seinna að sofa á kvöldin og vakna fyrr á morgnana. Fullorðnir þurfa að sofa á bilinu sjö til níu klukkustundir á sólarhring og ef við fáum ekki nægan svefn getur það haft neikvæð áhrif á heilsuna. Það skiptir því miklu máli að sofa vel. Business Insider fjallaði fyrir skemmstu um venjur nokkurra einstaklinga sem njóta mikillar velgengni áður en þeir fara að sofa. Þetta eru einstaklingar sem eru í mjög krefjandi starfi og hafa nóg að gera.
Bill Gates, stofandi Microsoft og ríkasti maður heims, finnur sér alltaf tíma til að lesa áður en hann lokar augunum á kvöldin. Hann sagði í viðtali við Seattle Times að hann lesi í klukkutíma og það skipti engu máli hvað klukkan er þegar lesturinn hefst. Hann segist lesa um eina bók á viku að jafnaði.
Sheryl Sandberg, framkvæmdastjóri hjá Facebook, passar upp á það að fá góðan og samfelldan nætursvefn. Hún sagði í viðtali við USA Today ekki alls fyrir löngu að hún leggi það í vana sinn að slökkva á farsíma sínum áður en hún sofnar. Hún viðurkennir að það geti verið óþægileg tilfinning en með þessu tryggir hún að ekkert trufli svefninn.
Arianna Huffington, stofnandi og fyrrverandi aðalritstjóri Huffington Post, þekkir af eigin raun hvaða áhrif mikið vinnuálag og lítil hvíld getur haft í för með sér. Hún hneig eitt sinn niður á skrifstofu sinni og kinnbeinsbrotnaði, en yfirliðið var rakið til ofþreytu. Eftir þetta passar Arianna að fá nægan svefn og sefur hún að jafnaði sjö til níu tíma á hverri nóttu. Hún slekkur á öllum rafmagnstækjum, fer í heitt bað og les bók áður en hún sofnar.
Oprah Winfrey vinnur stundum langa vinnudaga enda hefur hún mörg járn í eldinum. Hún segist þó alltaf finna sér tíma til hugleiðslu á hverjum degi, tvisvar á dag. Hún hugleiðir áður en hún fer að sofa en með því nær hún góðri slökun sem hjálpar henni að festa svefn fyrr en ella. Þess má geta að Oprah lét þróa fyrir sig sérstakt hugleiðslusmáforrit sem nálgast má fyrir snjallsíma.
Leikkonan Gwyneth Paltrow segist hugsa jafn mikið um að fá góðan nætursvefn og hún hugsar um að fá góða næringu og hreyfingu. Paltrow, sem auk þess að sinna leiklistinni, rekur lífsstílsvefinn Goop, segist ekki borða neitt frá átta að kvöldi til klukkan átta að morgni næsta dags. Þá segist Paltrow helst af öllu vilja fá fóta- eða höfuðnudd áður en hún sofnar. Þannig nær hún góðri slökun og sofnar fljótt og vel.
Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, var líklega í einu mest krefjandi starfi heims í þau átta ár sem hann gegndi embætti. Hann þurfti stundum að vera á fótum langt fram yfir miðnætti, starfs síns vegna. En Obama sagði í viðtali við Rolling Stone-tímaritið að þegar tími gæfist til myndi hann slaka á með lestri á góðri bók eða með því að horfa á spjallþáttinn The Daily Show.
Kenneth Chenault, stjórnarformaður American Express í Bandaríkjunum, hefur nóg af verkefnum á sinni könnu. Í viðtali við lífsstílsritið Fast Company sagðist hann leggja það í vana sinn að skrifa niður lista yfir þá hluti sem hann vill áorka daginn eftir. Sniðug leið til að leiða hugann að næstu verkefnum.