Heilinn vaknar endurnærður eftir 10 til 15 mínútna svefn – Sama gildir um börn og fullorðna
Í Evrópu sunnanverðri má finna þess dæmi að miðdegisblundir séu í hávegum hafðir. Spánverjar hafa þann sið að leggja sig eftir hádegið, yfir heitasta tímann. Þannig hlaða þeir rafhlöðurnar og mæta endurnærðir til vinnu á nýjan leik. Þær eru ekki margar þjóðirnar sem fylgja þessu fordæmi og víðast hvar væri litið á blund á miðjum vinnudegi sem veikleikamerki eða hreinlega leti.
Rannsóknir sýna að það getur verið meinhollt að leggja sig yfir daginn og raunar er það mikilvægur hluti af dægursveiflu fólks. Studdur blundur eykur árvekni fólks og afkastagetu og talað er um að 15 til 20 mínútur geti haft mikið að segja.
Sofðu eins mikið og nauðsynlegt er til þess að þér líði vel næsta dag, ekki minna og ekki meira. Of langur svefn getur truflað svefnmunstrið.
Reglulegur fótaferðartími og reglulegur háttatími styrkir líkamsklukkuna og leiðir til betri svefns.
Líkamleg áreynsla í formi daglegrar hreyfingar leiðir til betri svefnsHungur truflar svefn og sama gildir um að vera of saddur.
Forðast á örvandi drykki að kvöldi, sérstaklega með koffeini s.s. kaffi, te, kóla- og orkudrykki, suma hverja.
Áfengi getur hjálpað spenntum manni að sofna en það truflar svefninn og sama gildir um tóbak.
Tryggja þarf ró í umhverfi og huga áður en lagst er til svefns. Forðast að taka áhyggjurnar með í rúmið.
Gefðu líkamanum skilaboð um að hann sé að fara í hvíld með því að dempa ljósið og hætta tölvuvinnu/sjónvarpsáhorfi tímanlega fyrir svefn.
Gott rúm bætir svefninn og í herberginu ætti að vera hæfilegur hiti, myrkur og kyrrð.Ekki liggja andvaka í rúminu, farðu fram í smástund og gerðu eitthvað allt annað og reyndu svo aftur að sofna.
Svefnlyf geta hjálpað í stuttan tíma en notkun þeirra til lengri tíma er árangurslaus og jafnvel skaðleg.
Í nýlegri rannsókn sem University of Colorado Boulder stóð fyrir kom í ljós að börn sem ekki lögðu sig eftir hádegið voru ekki eins ánægð og áhugasöm þegar leið á daginn. Þau voru órólegri og gátu síður leyst þrautir en börn sem lögðu sig með reglubundnum hætti.
Rannsakendur við Berkeley-háskóla komust að því að það sama gilti um fullorðna. Þeir sem lögðu sig eftir hádegið áttu auðveldara með að læra og mundu hluti betur. Niðurstaðan bendir til þess að heilinn „endurræsist“ við hvíldina og eyði óþarfa hugsunum út úr skammtímaminninu. Fyrir vikið verður hann móttækilegri en ella fyrir nýrri þekkingu eða nýjum upplýsingum.
Sérfræðingar segja að 10 til 20 mínútna blundur nægi til að fólk vakni endurnært og tilbúið í komandi verkefni. Fólk nær ekki djúpsvefni á þessum tíma og er þess vegna eldsnöggt að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið. Ef maður sefur 30 mínútur eða lengur er líklegt að maður vakni upp ringlaður. Þá er maður að vakna í þann mund sem maður er að komast á dýpra stig svefnsins. Fram kemur að það sama gildi um 60 mínútna svefn en hann geti aftur á móti verið afbragðs góður fyrir minnið. Lengstu blundirnir, þeir sem vara í um 90 mínútur þykja góðir fyrir þá sem sváfu ekki nóg nóttina áður. Á þeim tíma fer maður í gegnum öll stig svefnsins og bætir fyrir vikið minnið og eflir sköpunargáfuna.
Á heildina litið eru blundir til þess fallnir að hjálpa manni – bæði líkamlega og andlega – til að komast í gegnum daginn. Það er hins vegar alls ekki mælt með að maður fórni nætursvefni í staðinn. Blundir ættu að vera viðbót við góðan nætursvefn, ef þeir eiga að gera það gagn sem til er ætlast.