Lystarstol er átröskun sem oftast leggst á stúlkur á aldrinum 12–20 ára. Drengir geta líka fengið hana. Sjúkdómurinn einkennist meðal annars af þyngdartapi, sem maður veldur sjálfur með því að sniðganga „feitan“ mat, eða hreyfir sig mjög mikið eða tekur lyf (hægðalyf, vatnslosandi lyf) eða með uppköstum.
Ekki er nákvæmlega vitað hvað orsakar lystarstol. Margt hefur þar áhrif. Þetta virðist tengt menningunni, enda sjúkdómurinn að mestu bundinn við hinn vestræna heim og fegurðarímynd nútímakonunnar. Gelgjuskeiðið hefur áhrif svo og ýmsir erfiðleikar og áföll, eins og ástvinamissir. Sérstaklega er mikil hætta á lystarstoli hjá fyrirsætum, ballettdönsurum og úrvalsfólki í íþróttum, því væntingar eru um að það sé mjög grannt.
Maður fær mat og hitaeiningar á heilann. Og alltaf er verið að bollaleggja hve lítið eigi að borða og hve mikið eigi að hreyfa sig. Ráðgert er að léttast um ákveðinn fjölda kílóa og því er farið í megrun. Megrunarkúrinn fer úr böndunum og engin leið er að hætta honum.
Einkenni lystarstols geta til dæmis verið þyngdartap sem er minnst 15% af eðlilegri þyngd (miðað við aldur og hæð). Þyngdartapið er af eigin völdum (fasta, skert næring, hreyfing, vatnslosandi lyf, hægðalyf, megrunarlyf, uppköst). Kvíði fyrir fitusöfnun og þyngdaraukningu. Tíðatruflanir eða þroskahömlur á gelgjuskeiði.
Ýmislegt er til ráða, segðu góðri vinkonu eða vini hvernig þér líður, eða foreldrum eða systkinum. Gerðu eitthvað skapandi, eins og að teikna, mála eða skrifa, ekki einangra þig frá öðrum, hittu lækni þinn eða annað fagfólk á heilbrigðissviði. Fáðu næringarráðleggingar og fylgdu þeim. Ræddu við aðra, sem hafa þjáðst af lystarstoli.
Því fyrr sem leitað er lækninga, því meiri eru möguleikarnir á því að ná bata. Því þarf að ná góðri samvinnu við stúlku með lystarstol. Að jafnaði varir sjúkdómurinn í þrjú ár, og maður getur vel náð bata þó að sjúkdómurinn hafi staðið í mörg ár. Ef ekki er leitað lækninga er hætt við því að veikindin verði langvarandi. Langvarandi sultur eykur hættuna á beingisnun (osteoporosis), hjá þeim yngstu getur vöxtur á hæðina staðnað, og hjartavöðvi, lifur, nýru og heili geta skaðast.
Þar sem sjúkdómurinn hefur bæði líkamleg og geðræn einkenni þarf meðferðin að miðast við hvort tveggja. Það er því mikilvægt að læknir sjái um meðferðina, gjarnan í samvinnu við sálfræðing. Einnig er gagnlegt að næringarráðgjafi og sjúkraþjálfari komi að málinu.