Baio da Sancho í Brasilíu var valin sú besta
TripAdvisor, stærsti ferðavefur heims, hefur valið bestu strendur ársins 2017 en vefurinn stendur fyrir valinu á hverju ári. Í ár kom það í hlut lítillar strandar í Brasilíu að vera valin sú besta.
Það eru notendur TripAdvisor sem standa fyrir valinu en úrslitin eru kunngjörð á TripAdvisor Travellers‘ Choice-verðlaunahátíðinni. Hér að neðan má sjá fimm bestu strendur ársins 2017.
Eins og að framan greinir varð þessi fallega strönd hlutskörpust í kjörinu í ár. Ströndin er tiltölulega lítil en mikil veðursæld og kristaltær sjór gera hana að ómótstæðilegum áfangastað þeirra sem vilja sóla sig í fallegu umhverfi. Þá eru fallegar gönguleiðir í nágrenni strandarinnar og ekki er óalgengt að sjá höfrunga spóka sig í sjónum skammt frá landi.
Turks- og Caocoseyjar eru tveir eykaklasar sem standa skammt suðaustur af Bahama-eyjum. Þess má geta að ströndin var í efsta sætinu í valinu árið 2016. Þessi ósnortna náttúruparadís þykir ein sú flottasta í heimi.
Hvítur og fíngerður sandur og kristaltær sjór gera það að verkum að Eagle Beach á Arúba er ein sú flottasta í heimi. Þarna rignir sárasjaldan og ferðalangar geta nánast alltaf verið vissir um að fá sól og blíðu þegar þeir heimsækja eyjuna.
Þessi strönd ber nafn með rentu. Paradísareyja, eða Playa Paraiso, hefur fengið lofsamlega dóma hjá notendum TripAdvisor í gegnum árin. Sjórinn við ströndina er mjög tær og öldugangur er lítill sem enginn.
Siesta Beach er besta strönd Bandaríkjanna samkvæmt notendum TripAdvisor. Þarna geta áhugasamir fundið ýmsa afþreyingu; til dæmis farið í strandblak eða snætt á einhverjum af þeim fjölmörgu veitingastöðum við ströndina. Ströndin er stór og mikil og nóg pláss fyrir alla.