Fyrirtæki leggja meiri áherslu á að bjóða starfsfólki upp á ýmiss konar kaupauka
Flest okkar eyða drjúgum hluta ævinnar í vinnunni og því skiptir það miklu máli að vinnuveitendur okkar skapi okkur gott vinnuumhverfi svo okkur líði vel í vinnunni. Mörg fyrirtæki kappkosta að gera þetta og fá á móti ánægt starfsfólk sem er tilbúið að leggja mikið á sig. Góð laun eru aðeins einn þáttur en mörg fyrirtæki bjóða starfsmönnum sínum ýmiss konar kaupauka, sem ekki er inni í hinum hefðbundnu launum. Business Insider tók saman nokkur athyglisverð dæmi sem má sjá hér. Ekki er þó um tæmandi upplýsingar að ræða og aðeins stiklað á stóru um helstu atriðin.
Í könnun sem ráðningarskrifstofan Glassdoor framkvæmdi ekki alls fyrir löngu sögðust 57 prósent þeirra sem voru í atvinnuleit horfa til kaupauka fyrirtækja þegar þeir ákveða hvort þeir þiggi starf eða ekki. Með kaupauka er átt við ýmislegt sem starfsmenn þurfa ekki að bera kostnað af; allt frá mat í vinnunni til ókeypis húsnæðis. Í þessari sömu könnun sögðust 80 prósent svarenda frekar vilja kaupauka en launahækkun. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að fyrirtæki bjóði starfsfólki ýmislegt aukreitis við hin hefðbundnu laun. Það er ekki að ástæðulausu því ljóst er að mikið er undir hjá fyrirtækjum. Hæfasta starfsfólkið leitar þangað sem kjörin eru best.
„Kaupaukar og ýmsar viðbætur við laun skipta miklu máli. Þeir sem eru í atvinnuleit ættu að hafa þetta í huga,“ segir Scott Dobroski, sérfræðingur hjá Glassdoor, í samtali við Business Insider.
Starfsnemum hjá Facebook stendur til boða ókeypis húsnæði meðan á reynslutímanum stendur. Þeir sem kjósa heldur að búa annars staðar geta fengið þúsund Bandaríkjadali í framfærslustyrk, rúmar 100 þúsund krónur, ofan á þau laun sem þeir fá. Starfsmenn fá einnig ókeypis mat í vinnunni, fjögurra mánaða fæðingarorlof á fullum launum og góðar tryggingar.
Starfsfólk American Express fær fimm mánaða fæðingarorlof á fullum launum eftir að það eignast barn. Þetta á bæði við um feður og mæður. Þessu til viðbótar hefur starfsfólk aðgang að brjóstagjafarráðgjafa allan sólarhringinn auk þess sem mæður, sem þurfa að ferðast mikið vegna vinnu sinnar, geta sent brjóstamjólk með hraðpósti hvert á land sem er, endurgjaldslaust.
In-N-Out Burger er bandarísk skyndibitakeðja sem rekur yfir 300 útibú víða um Bandaríkin. Starfsfólk borðar frítt á staðnum en ekki er mælt með því að hver og einn borði meira en einn tvöfaldan hamborgara með frönskum á degi hverjum.
Google er býsna eftirsóttur vinnustaður og það ekki að ástæðulausu. Aðstandendum þeirra starfsmanna sem falla frá eru tryggðar greiðslur í áratug eftir fráfall viðkomandi. Maki fær 50 prósent af launum viðkomandi starfsmanns í tíu ár eftir andlát hans. Þá fá starfsmenn frían hádegis- og kvöldverð og geta látið þvo bílinn sinn frítt.
Streymisveitan Netflix býður starfsfólki sínu eins árs fæðingarorlof á fullum launum. Þetta á bæði við um feður og mæður.
Tæknifyrirtækið Salesforce í Kaliforníu í Bandaríkjunum gefur starfsmönnum sínum launað leyfi sex daga á ári til að sinna sjálfboðastörfum. Þá fá þeir þúsund dollara á ári sem þeir geta ráðstafað til þeirra góðgerðarmála sem þeir vilja.
Airbnb hefur notið vaxandi vinsælda á undanförnum árum. Fyrirtækið, sem er með höfuðstöðvar sínar í San Francisco í Kaliforníu, gefur starfsmönnum sínum tvö þúsund Bandaríkjadali, tæpar 230 þúsund krónur, á hverju ári sem þeir geta notað til að gista á einhverjum af þúsundum gististaða sem fyrirtækið býður upp á.
Fyrirtækið Adobe, sem framleiðir og þróar ýmsan hugbúnað í tölvur, lokar í einu viku í desember ár hvert og eina viku yfir sumartímann. Þetta er gert svo allir starfsmenn geti átt þess kost að hugsa um allt annað en vinnuna tvær vikur á ári.
Líftæknifyrirtækið Genentech býður starfsfólki sínu upp á alls konar þjónustu. Þannig getur fólk látið þvo bílinn sinn frítt, farið í klippingu frítt og notið ókeypis tannlæknaþjónustu. Þá býður fyrirtækið upp á daggæslu fyrir börn starfsmanna ef þeir lenda í vandræðum með pössun.
Starfsfólki Twitter stendur ýmislegt til boða. Þannig fá þeir sem vinna langa vinnudaga þrjár ókeypis máltíðir á dag. Þá geta starfsmenn sótt ýmiss konar endurmenntunarnámskeið endurgjaldslaust að sjálfsögðu.