Fyrir örfáum árum spáðu sérfræðingar því að þrívíddarsjónvörp yrðu næsta byltingin í sjónvarpsáhorfi heima í stofu. Ófáir framleiðendur stukku á vagninn og hófu framleiðslu á þessari tegund sjónvarpa, en nú virðist bólan hins vegar sprungin.
LG og Sony hafa bæði staðfest að fyrirtækin muni hætta að framleiða sjónvörp á næsta ári sem styðja þrívíddartæknina. Þessi tíðindi koma eflaust einhverjum á óvart enda sýnir reynslan að stundum getur það tekið nokkur ár að fá markaðinn – og neytendur – til að venjast nýjungum. Staðreyndin er hins vegar sú að Samsung ákvað að hætta að bjóða upp á þrívíddartækni í sínum sjónvörpum á síðasta ári líkt og Phillips.
„Þrívíddartæknin hefur í raun aldrei verið lykilþáttur hjá neytendum þegar kemur að því að kaupa ný sjónvörp,“ segir Tim Alessi, framkvæmdastjóri hjá LG, í samtali við Cnet. Vísaði hann í umfangsmiklar kannanir sem framkvæmdar hafa verið meðal neytenda.
Alessi segir að fyrirtækið muni heldur einbeita sér að þróun HDR-tækninnar (e. High-dynamic-range imaging) fyrir sjónvörp.