Ingibjörg Ásta Pétursdóttir sendir frá sér óvenjulega matreiðslubók – Ekki bara uppskriftir
Ingibjörg Ásta Pétursdóttir er mörgum kunn en hún rekur Hótel Flatey á Breiðafirði og rak í langan tíma Mensu Café og Mensu veisluþjónustu. Nú er komin út fyrsta matreiðslubók Ingibjargar, Mensa, og undirtitill er Matur, minningar og litlir hlutir sem skipta máli. Crymogea gefur út þessa óvenjulegu matreiðslubók en auk uppskriftanna er í bókinni sögð saga Ingibjargar sjálfrar. Bókin er ríkulega myndskreytt en fjöldi ljósmyndara kom að verkinu og þar eru einnig myndir úr fjölskyldualbúmi Ingibjargar.
„Bókin var í smíðum í mörg ár og elstu myndirnar í henni voru teknar fyrir tólf árum af frönskum ljósmyndara. Ég hreifst af náttúrumyndum hans sem ég sá á sýningu hér á landi og spurði hann hvort hann vildi taka matarmyndir fyrir mig í matreiðslubók. Ég eldaði og hann tók myndir en vinnan náði aldrei lengra. Það var svo miklu flóknara að gera bók en ég hafði gert mér grein fyrir,“ segir Ingibjörg. „Svo leið og beið og ekkert bar til tíðinda fyrr en vinur minn Ámundi Sigurðsson sem er grafískur hönnuður sagðist vilja gera bók með mér. „Sjáum til,“ sagði ég sem hafði alltaf svo mikið að gera. Það liðu nokkur ár en svo hitti ég Ámunda og konu hans í stórverslun og við tókum tal saman. Þá kom maðurinn minn aðvífandi og spurði: „Eruð þið að tala um að búa til bók?“ Við Ámundi litum hvort á annað og sögðum: „Já, gefum út bók.“
Um uppskriftirnar segir Ingibjörg: „Þær eru mjög klassískar og ég reyndi að hafa þær ekki of flóknar. Ég bjó í Frakklandi í tólf ár og þarna eru til dæmis klassískir franskir réttir, eins og hani í rauðvínssósu sem margir halda að sé mjög flókið að gera. Ég hélt það líka í upphafi og í fyrstu uppskrift sem ég sá að þeim rétti stóð: Kauptu hana hjá kaupmanninum og fáðu hjá honum blóð úr hananum til að dekkja sósuna. Þetta hljómaði ekki beint einfalt! Í dag notar maður kjúkling í þessa uppskrift og rauðvín sem litar sósuna. Þarna er líka uppskrift að kanínu í sinnepssósu sem er mjög góður matur. Svo er uppskrift að paellu, graflaxi og ýmiss konar bökum, svo ég nefni einhver dæmi um uppskriftir. Sögur og alls kyns fróðleikur fylgir svo með uppskriftunum. Þetta er matreiðslubók með uppskriftum og minningum. Hún er fjölbreytt og frábærlega vel sett saman hjá Ámunda. Ég er alsæl með útkomuna.“