fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
FókusKynning

„Finnst ykkur í alvörunni í lagi að líkamssmána feit börn?“

Pistill Einars Ísfjörð vekur hörð viðbrögð – Segir foreldra feitra barna vera heimska – Tara Margrét svarar honum fullum hálsi

Einar Þór Sigurðsson
Föstudaginn 26. ágúst 2016 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Finnst ykkur í alvörunni í lagi að líkamssmána feit börn,“ spyr Tara Margrét Vilhjálmsdóttir, félagsráðgjafi og stjórnarmeðlimur í Samtökum um líkamsvirðingu, á Facebook-síðu sinni. Tilefnið er grein eftir pistlahöfundinn Einar Ísfjörð þar sem hann fjallar meðal annars um feit börn á Íslandi.

„Vandamálið er feita barnið þeirra“

Pistlill hans hefur vakið mikil viðbrögð.
Einar Ísfjörð Pistlill hans hefur vakið mikil viðbrögð.

Tara Margrét er sem fyrr segir stjórnarmeðlimur í Samtökum um líkamsvirðingu og hefur hún verið ötull talsmaður um fordóma á grundvelli holdafars.

Pistill Einars Ísfjörð, Námið er gamaldags, börnin eru feit og foreldrar eru aumingjar birtist í byrjun ágúst og hefur honum verið deilt sex þúsund sinnum. Þar spyr Einar meðal annars af hverju „feitu krakkarnir“ séu ekki látnir fara oftar í íþróttir en þau sem eru í kjörþyngd. Einar segir að „allir“ séu sammála þessari skoðun nema þeir sem eiga feit börn. Hann segist vera með svarið hvers vegna þetta er ekki gert.

„Reyndar sjá þau ekkert nema vandamálið, því vandamálið er feita barnið þeirra og það auðvitað sjá það allir því það er svo feitt.“

„Þeir sem eiga feit börn, sjá ekki vandamálið því það er of nærri þeim. Okei, það er ekki alveg rétt. Reyndar sjá þau ekkert nema vandamálið, því vandamálið er feita barnið þeirra og það auðvitað sjá það allir því það er svo feitt. En þau neita að horfast í augu við það. Flest feit börn, halda að vandamálið sé bara þeirra, að það sé þeim að kenna að þau séu feit. En oftast er það foreldrunum að kenna því þau eru heimsk og axla ekki ábyrgð. Þegar ég segi heimsk þá meina ég það í orðsins fyllstu og á við að þau eru fáfróð og einmitt taka ekki ábyrgð á barninu sínu og velferð þess.“

Í lagi að líkamssmána feit börn?

Tara Margrét birti harðorða færslu á Facebook-síðu sinni, sem hún beindi til þeirra sem deilt hafa pistli Einars og þeirra sem hafa tekið undir ummæli hans.

„Hérna…er ekki allt í lagi með ykkur sem eruð að deila þessum pistli hérna á Facebook með þeim orðum að þið séuð sammála höfundinum? Finnst ykkur í alvörunni í lagi að líkamssmána feit börn þegar ofbeldið og eineltið gagnvart þeim er þegar orðinn svo alvarlegur vandi að það er sérstaklega vakin athygli á að feit börn séu nemendur sem þarnfast sérstakrar umhyggju í þessari handbók fyrir starfsmenn skóla. Sum ykkar eiga sjálf börn og þið takið þátt í að dreifa þessum horbjóði. Skammist ykkar,“ segir Tara.

Feit börn þarnast sérstakrar umhyggju

Í umræddri handbók sem Tara vísaði til – og er gefin út af Námsgagnastofnun – er að finna kafla um nemendur sem þarfnast sérstakrar umhyggju. Þar er meðal annars fjallað um fötluð börn, börn með hegðunar- og samskiptavanda og börn sem skera sig úr fjöldanum, til dæmis vegna uppruna, trúarbragða eða tungumáls. Þá er einnig fjallað um börn sem glíma við offitu.

„Loks má benda á fordóma gegn feitum börnum, en offita er alvarlegur heilsufarsvandi og neikvæðri umfjöllun um hana er gjarnan ætlað að skapa reiði og viðbjóð. Hætt er við að sú barátta leiðist yfir í neikvæða umfjöllun um feitt fólk og feit börn. Í heimi þar sem fallegum en umfram allt grönnum líkömum er hampað á feitt fólk sér fáa málsvara. Það skiptir miklu máli að börn hafi jákvætt viðhorf til eigin líkama því að slæm líkamsmynd tengist vanda á borð við átraskanir, þunglyndi og félagsfælni,“ segir í handbókinni.

Í pistli sem Tara skrifaði benti hún að feitum börnum hefði fækkað frá aldamótum. Þá sagði hún að umræða um ofþyngd og heilsufarslegar afleiðingar hennar hvetji fólk ekki til að taka meiri ábyrgð á heilsufari sínu.
Fer fækkandi Í pistli sem Tara skrifaði benti hún að feitum börnum hefði fækkað frá aldamótum. Þá sagði hún að umræða um ofþyngd og heilsufarslegar afleiðingar hennar hvetji fólk ekki til að taka meiri ábyrgð á heilsufari sínu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Stendur við orð sín

Einar Ísfjörð sagði frá því í útvarpsþættinum Brennslan í morgun að hann hafi fengið mikil viðbrögð við pistlinum og kvaðst átta sig á því að ekki væru allir sáttir við skrifin. „Fyrir mér er þetta ekkert annað en sannleikurinn og sannleikurinn er greinilega ekkert alltaf sagna bestur. Fólk segist vilja sannleikann en þegar maður er heiðarlegur við það þá fer það oft í fýlu,“ sagði Einar.

Feitum börnum fer fækkandi

Í samtali við DV segir Tara að hún hafi haft samband við Einar og bent honum á hvernig skrif hans hafa áhrif til hins verra. Það segist hún hafa gert þann 25. mars síðastliðinn og sendi hún honum pistil sem hún skrifaði á vef Kvennablaðsins sem vakti mikla athygli.

„Í pistlinum sem ég sendi honum kemur meðal annars fram að feitum íslenskum börnum hefur farið fækkandi frá aldamótum og einnig að umræða um ofþyngd og heilsufarslegar afleiðingar hennar hvetji fólk ekki til að taka meiri ábyrgð á heilsufari sínu,“ segir Tara sem vísaði í fjölda heimilda máli sínu til stuðnings. Í pistlinum segir meðal annars:

„Slík orðræða getur leitt til þess að feitt fólk innrætir staðalmyndirnar með sér og byrjar þannig að trúa því að þær eigi við um sjálft sig.“

„Flest bendir til að þessu sé öfugt farið. Slík orðræða getur leitt til þess að feitt fólk innrætir staðalmyndirnar með sér og byrjar þannig að trúa því að þær eigi við um sjálft sig. Þetta leiðir af sér að þessir sömu einstaklingar byrja að hegða sér eins og staðalmyndin segir til um og úr verður svokölluð “virk spá“ (self-fulfilling prophecy). Að trúa, eða verða fyrir þessum staðalmyndum frá utanaðkomandi aðilum hefur síðan í för með sér að fólk er ólíklegara til að hreyfa sig og líklegara til að viðhafa óheilbrigðar matarvenjur. Í raun er það svo að skekkja og fordómar gagnvart fólki á grundvelli holdafars er vel þekkt hindrun í átt að bættri lýðheilsu.“

Verðum að krefjast hófstilltari umræðu

Tara segir það ekki standast skoðun að markmið Einars, líkt og kom fram í Brennslunni í morgun, sé að vekja fólk til umhugsunar eða að fólk leiti lausna. „Ég veit ekki hvað honum gengur til með þessum skrifum, hann hefur ekkert fyrir sér í meintri hvatningu sinni og vísar aldrei til rannsókna eða neins sem hægt er að byggja á,“ segir hún og bætir við að nú sé mál að linni. Skrif sem þessi einkennist af hatri og sé ekkert annað en hatursorðræða.

„Ef að Einar er ekki tilbúin til að hætta þessum skrifum að þá þurfa fjölmiðlar að hætta að hleypa honum að og taka samfélagslega ábyrgð sína alvarlega í eitt skipti fyrir öll. Við verðum að krefjast hófstilltari umræðu um holdafar og það strax ef ekki á að stefna í enn hatursfyllra samfélag,“ segir hún að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
27.03.2024

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“

„Algjört saunaæði runnið yfir landsmenn“
Kynning
19.03.2024

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com

Þú færð allt fyrir ferminguna á Boozt.com
Kynning
29.10.2023

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“

Flýgur með Íslendinga til paradísarinnar Punta Cana í myrkasta skammdeginu – „Ég skildi við kallinn en ekki landið“
Kynning
27.10.2023

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni

Jólabjór og opið til miðnættis í Nýju Vínbúðinni