„Ertu að hugsa um að heimsækja Reykjavík eins og allir aðrir? Þú ættir frekar að fara til Finnlands.“ Þannig hljómar fyrirsögnin á grein Karen Burshtein, blaðakonu bandaríska Vouge sem kveðst efast um að Reykjavík og nágrenni séu ákjósanlegir staðir fyrir ferðamenn að heimsækja.
„Er eins og allir sem þú þekkir séu á leið til Reykjavíkur í sumar?“ spyr Burshtein lesendur sína en tekur þó fram að íslenska höfuðborgin sé vissulega heitur áfangastaður um þessar mundir. „Í alvöru talað, er allt þetta fólk að fara að komast fyrir í Bláa Lóninu?“ spyr hún síðan.
„Meira að segja eru Ferðamálastofa og Rannsóknarmiðstöð ferðamála að kanna um þessar mundir hvort ferðamannastraumurinn á Íslandi sé kominn yfir öll mörk,“ bætir blaðakonan því næst við.
Hún bendir síðan á að ef til vill sé ekki óvitlaust að athuga möguleikann á því að heimsækja Helsinki; borg þar sem megi finna tryllta sumarfögnuði, fjölbreytta og vaxandi matarmenningu að ógleymdum gufuböðunum. Þá tekur hún fram að fólk þurfi ekki að óttast að missa af öllum sérkennilegheitunum sem Ísland er þekkt fyrir þó svo að það ákveði frekar að sækju finnsku borgina heim.