Íslensku sumarleikarnir á Akureyri
Íslensku sumarleikarnir á Akureyri ná hámarki um verslunarmannahelgina en standa mun lengur, eða í eina viku. Áður en verslunarmannahelgina rennur upp á sér stað mikil hjólreiðakeppni sem hefst núna á föstudaginn, 22. júlí. Þriðjudaginn 26. júlí hefst síðan sannkallaður stórviðburður en það er heimsmeistaramótið í golfi 21 árs og yngri. Fer það fram á Jaðri á Akureyri og er nú haldið í fyrsta skipti á Íslandi. „Þarna erum við að sjá framtíðargolfstjörnur heimsins, atvinnukylfinga sem koma að utan, tugi manna,“ segir Davíð Rúnar Gunnarsson hjá Viðburðastofu Norðurlands.
Um verslunarmannahelgina fer síðan hátíðin í fullan gang. „Þá er þessi hefðbundna dagskrá sem var áður Ein með öllu en við köllum núna Íslensku sumarleikana. Þarna eru afar fjölbreyttir dansleikir og tónleikar auk alls konar íþróttamóta. Beinar útsendingar fyrir alla landsmenn frá hátíðinni verða á sjónvarpsstöðinni N4 á föstudagskvöldinu og verður þá sýnt frá föstudagsfílingnum en þar koma fram Bjarkey Sif Sveinsdóttir, Aron Óskars og hljómsveit, Sunna Björk, Dúndurfréttir, Herðubreið og Gréta Salóme ,“ segir Davíð.
Meðal þeirra tónlistarmanna sem koma fram á Íslensku sumarleikunum eru Skítamórall, Páll Óskar og Úlfur Úlfur.
„Síðan má nefna Dynheimaballið, sem er svona „reunion-ball“ fyrir 30 ára og eldri og er alltaf mjög vinsælt. Við erum með alla flóruna í skemmtunum. Einnig Dúndurfréttir, Killer Queen, Made in sveitin, Hvanndalsbræður og Maríu Ólafsdóttur og hljómsveit. Þá má líka nefna Óskalagatónleikana sem verða í Akureyrarkirkju á föstudagskvöld en þar koma fram Óskar Péturs stórsöngvari og Eyþór Ingi organisti og syngja og spila öll lög sem gestir biðja um,“ segir Davíð.
Á laugardeginum eru allir krakkar velkomnir í miðbæinn en þá verður sérstök krakkadagskrá á boðstólum en þangað mæta Einar Mikael töframaður, Lína langsokkur og Páll Óskar. Fá krakkarnir að hitta alla þessa listamenn og jafnvel taka sjálfir þátt með þeim.
Íþróttaviðburðir setja líka svip sinn á leikana um verslunarmannahelgina: „Við erum að bæta við fullt af íþróttum og íþróttatengdum viðburðum. Þar má nefna Súlur-Vertical hlaupið en þá er hlaupið frá miðbænum og alveg upp á Súlur. Við erum með CrossFit Ofurleikana þar sem CrossFit keppendur allra stöðva á Akureyri keppa sín á milli. Það verður kirkjutröppubrun þar sem hjólreiðagarpar hjóla niður kirkjutröppurnar – og kirkjutröppuhlaup þar sem hlaupið er upp tröppurnar. Pabbar og pönnsur er síðan viðburður sem Hetjurnar, félag langveikra barna, stendur fyrir. Þau ætla að hvetja alla pabba til að búa til pönnsur af öllum stærðum og gerðum og litum, koma með þær á Glerártorg og selja til styrktar félaginu,“ segir Davíð. Hann nefnir síðan til sögunnar Sparitónleika sem haldnir verða á flötinni fyrir framan leikhúsið á sunnudagskvöld, en óhætt er að segja að dagskráin í heild sé afskaplega fjölbreytt.
„Við minnum að sjálfsögðu alla bæjarbúa að skreyta með rauðu en Akureyri er alltaf sett í rauðan lit yfir verslunarmannahelgina og geta bæjarbúar unnið til glæsilegra vinninga,“ segir Davíð.
Það kostar í sjálfu sér ekkert á Íslensku sumarleikana. Það er ekkert gjald inn á mótsvæðið og öllum er frjálst að vera á svæðinu og njóta dagskrárinnar án endurgjalds. Fyrir þá sem vilja taka þátt í íþróttaviðburðum er hins vegar mótsgjald en nánari upplýsingar um skráningu eru á heimasíðunni http://www.icelandsummergames.com/. Einnig þarf að borga sig inn á suma dansleikina.