Samsetning sem getur ekki klikkað
Salöt eru eins og ljóð – í þeim er rými fyrir endalausa sköpunargleði, og þau eru jafnmisjöfn og þau eru mörg.
Ég hef lengi verið hrifin af grilluðum ávöxtum í salati – allar götur síðan ég lærði að gera gómsætt steinseljusalat með grilluðum ferskjum, halloumi-osti og marokkóskum kryddum. Það má segja að salatið sem ég kynni nú til sögunnar sé óskilgetið afkvæmi þess – þó að það sé með allt öðru innihaldi og asísku ívafi. Samspil ólíkra þátta er þó æði svipað – hér er ferskleikinn í salati, tómötum og kryddjurtum, súrsætt bragð kemur frá grilluðu ávöxtunum og seltan frá ostinum. Salatið er svo kórónað með dýrindis nautakjöti, framfillé, sem ég sótti til piltanna í Kjöti & fiski á Bergstaðastræti og skellti á grillið.
Grænmetið:
Iceberg-salat – 1 höfuð
Cherry-tómatar – 1 askja
Vænt knippi af ferskum kóríander
Skerið salat og tómata. Klippið kóríander niður og setjið allra síðast á salatið áður en það er borið fram.
Á grillið:
5 apríkósur, skornar í helminga
1 pera, skorin í fleyga
Setjið ávextina saman í skál og hellið slettu af ólífuolíu yfir. Grillið þar til ávextirnir hafa mýkst og fengið fallegar grillrendur.
Halloumi-ostur – skorinn í sneiðar
Grillið ostinn báðum megin þar til grillrendur eru vel sjáanlegar. Skerið í bita og látið kólna lítillega áður en þeir eru settir út í salatið.
Nautaframfillé – um 500 g
*Nuddið kjötið með 1 msk. Worchestershiresósu og 2 msk. ólífuolíu. Þerrið mestu bleytuna af. Piprið vel með svörtum pipar og saltið. Grillið við háan hita í 3 mínútur á hvorri hlið. Færið kjötið á efri grind grillsins, eða í minni hita, og grillið í 5 mínútur í viðbót. Látið kjötið sitja á bretti í 10 mínútur áður en það er skorið í þunnar sneiðar.“
Sósan
5 msk. rapsolía
1 msk. sesamolía
5 msk. sojasósa
4 msk. hrísgrónaedik
3 msk. púðursykur
1 hvítlauksrif
2,5 cm bútur engifer
1 msk. maísmjöl
2 msk. vatn
Sjóðið allt innihald, nema maísmjöl og vatn, saman í potti við miðlungsháan hita. Hrærið saman maísmjöl og vatn og hellið út í blönduna til að þykkja. Kælið áður en sósunni er hellt yfir salatið.