fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
FókusKynning

Stefnumót – Leiðbeiningar

Það sem á að gera og það sem á ekki að gera

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 29. júní 2016 22:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Stefnumótamenning er loksins að verða til á Íslandi. Sú tíð er nú liðin að einhleypir geri sér að góðu lostafullt augnaráð gegnum reykmettað loft skemmtistaða í aðdraganda að bólförum eða einhverju sem varir aðeins lengur.

Margir vilja meina að tæknin hafi hjálpað okkur heil ósköp – að innreið snjallsímaforritsins Tinder hafi lyft okkur á hærra plan. Í það minnsta virðist menningin hafa snarskánað á ógnarhraða, enda er þjóðin þekkt fyrir að einhenda sér í brýn verkefni.

Við fengum nokkra valinkunna einstaklinga, með víðtæka stefnumótareynslu, til að gefa lesendum góð ráð.

Gerðu þetta fyrir alla muni

Vertu stundvís, og láttu vita ef þér seinkar jafnvel þótt það sé bara um nokkrar mínútur.

Sýndu að þér sé annt um þann sem þú ert að hitta. „Varstu búin/n að panta þér?“ eða „viltu áfyllingu á vatnsglasið?“, eru mjög smekklegar spurningar.

Farðu úr yfirhöfninni og taktu af þér trefilinn. Ekki sitja á stefnumóti með rennt upp í háls eins og þú sért alveg að fara.

Talaðu fallega um fólk. Sérstaklega fyrrverandi kærasta/kærustur/eiginmenn/eiginkonur. Fegurð þín vex með hverju fallegu orði sem þú notar.

Sýndu viðkomandi áhuga, spurðu spurninga. Á stefnumóti er ákveðin forvitni algjörlega viðeigandi. Einræður eru ekki sjarmerandi.

Vertu í víðsýna og umburðarlynda gírnum. Þú gætir komist að því að sá eða sú sem þú situr til borðs með hafi viðhorf eða skoðanir sem þú ert ósammála. Mundu að fólk er alls konar.

Þakkaðu fyrir stefnumótið, til dæmis með skilaboðum innan sólarhrings, jafnvel þó að það hafi ekki staðist væntingar.

Borgaðu reikninginn ef stefnumótið var að þínu frumkvæði.

Skilaðu viðkomandi heim, ef þú sóttir hann/hana.

Ef um fyrsta stefnumót er að ræða er þægilegast fyrir alla að fara á stað sem býður upp á dálítið næði. Snaps og Hverfisgata 12 eru til dæmis betri staðir en Kex og Bazaar hvað þetta varðar.

Heiðarleiki er heitur.

Slakaðu á. Njóttu þess að kynnast nýrri manneskju. Það er fallegt að einhver vilji gefa þér tíma sinn – jafnvel þó að enginn muni flytja lögheimilið í kjölfarið.

Ef þú kynnist fólki gegnum stefnumótavefi eða smáforrit, gættu þess þá að hafa nýjar myndir til sýnis. Það er ekkert vit í að birta 20 ára gamlar myndir og valda svo vonbrigðum þegar þú mætir.

Mundu eftir augnsambandinu.

Það er alltaf skemmtilegt þegar lögð er dálítil hugsun í stefnumótið. Það þarf alls ekki að vera dýrt. Byrja mætti á göngutúr í grasagarðinum og fá sér kaffi á eftir. Upplifunin verður skemmtilegri hvort sem þið náið saman á endanum eða ekki.

NEI

Slepptu þessu alveg

Ekki koma með illa hirtar tennur á stefnumót, eða vera með illa hirtar tennur yfir höfuð. Það er fátt jafnfráhrindandi og skán á tönnum og andremma.

Ef þú finnur að tenging er ekki að myndast á milli ykkar, skaltu ekki sitja í klukkutíma til viðbótar og ljúga því svo að þú munir hafa samband.

Ekki tékka þig inn á samfélagsmiðil og merkja stefnumótið þitt á Facebook ef þið voruð að hittast. Slepptu því bara alveg að taka upp símann.

Ekki fara að tala um að þú sért með holdris, nema samræður ykkar hafi tekið hastarlega beygju í átt að samræði.

Ekki drekka í óhófi. Já, og ekki mæta undir áhrifum á stefnumótið.

Ekki reyna að segja grjótharðar sögur af slagsmálum. Ofbeldi slekkur losta.

Ekki tala um hversu ömurleg fyrri sambönd hafa verið. Að tala um hversu steikt og sjúkt samband þitt við fyrrverandi var hringir mjög stórum viðvörunarbjöllum.

Ekki segjast finnast gaman að ferðast ef eina ferðalagið sem þú getur sagt frá er stutt fyllerísferð til Köben.

Ekki segjast ætla að hafa samband eða lýsa vilja til að hittast aftur, nema þú meinir það.

Vertu fullviss um að sá/sú sem þú hittir sé í stjórn ungra sjálfstæðismanna áður en þú heldur ræðu um hvernig íslenska bótakerfið sé að eyðileggja íslenskan sjávarútveg.

Ekki bjóða henni/honum strax á næstu grunnskólaendurfundi með orðunum: „Núna loksins fattar fólk að ég er ekki lúser!“

Álitsgjafar: Bergljót Björk, Steini Glimmer Þóruson, Kristín Tómasdóttir, Svanhvít Thea Árnadóttir, Jón Örn Arnarson, Ragna Gestsdóttir, Margrét Erla Maack

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
06.06.2024

Frumsýna nýjan Škoda Kodiaq á laugardaginn

Frumsýna nýjan Škoda Kodiaq á laugardaginn
Kynning
06.06.2024

Frumsýning – Nýr Škoda Kodiaq

Frumsýning – Nýr Škoda Kodiaq
Kynning
26.01.2024

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7

Vetrarsýning Heklu – Frumsýnum Volkswagen Touareg og rafmagnaðan ID.7
Kynning
23.01.2024

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea

Tífalt meira magn af „bótoxi jurtaríkisins“ í nýju serumi frá Nivea
Kynning
16.11.2023

Það geta allir fundið eitthvað fyrir jólaundirbúninginn á Svörtudögum Boozt

Það geta allir fundið eitthvað fyrir jólaundirbúninginn á Svörtudögum Boozt
Kynning
08.11.2023

Regus horfir til frjálsrar framtíðar frá Kirkjusandi

Regus horfir til frjálsrar framtíðar frá Kirkjusandi