Þrjú ómótstæðileg salöt fyrir næstu grillveislu
Sumarið er tíminn þegar sólin skín og logar í grillum. Grillmatur getur verið óskaplega fjölbreyttur, enda er það eldunaraðferðin ein sem skilgreinir máltíð sem grillmáltíð. Þá gildir einu hvort maður kastar hrefnukjöti, risarækjum, nautatungu eða portobellosvepp yfir logana.
Meðlætið getur skipt sköpum, og þar er sannarlega hægt að láta sköpunargleðina njóta sín. Hér eru þrjú salöt sem borin voru á borð í grillveislu á Ægissíðunni um daginn. Húsráðandi lagði til rækjur, lambafille og naut á grillið, en gestir mættu með salötin. Svona salöt passa með hverju sem er og eru því tilvalin í veislur þar sem réttir koma úr ýmsum áttum. Gjörið svo vel!
Iceberg-salat
Klettasalat
Mangó
Cherry-tómatar
Hér kemur svo galdurinn:
2 bollar svartar Doritos-flögur, muldar
1 bolli kasjúhnetur
3 msk. hlynsíróp
2 msk. sykur
Aðferð: Skerið salatið í strimla, tómatana í fjórðunga, mangóið í teninga og setjið í skál með klettasalatinu. Magnið fer eftir því hversu margir eru í veislunni og hversu svangir gestirnir eru. Þó er líklegt að salatið muni klárast óháð stærð, svo gómsætt er það nefnilega. Hitið pönnu miðlungsmikið og þurrristið kasjúhneturnar. Þegar þær eru rétt byrjaðar að fá á sig gullinn lit er Doritos-flögunum bætt út á pönnuna. Þurrristið blönduna saman í nokkrar mínútur og bætið svo við hlynsírópi og sykri. Steikið áfram í nokkrar mínútur. Látið kólna og brjótið niður áður en dásemdinni er dreift yfir salatið.
Hér er komin hin fullkomna aðferð til að nýta mangóávöxtinn sem best. Skerið meðfram steininum báðum megin og notið glas eða bolla til að skafa kjötið úr hýðinu.
Soðnar kartöflur
Graslaukur
Rauð paprika
Kóríander
4 msk. majónes
½ dós sýrður rjómi
Aðferð: Blandið majónesi og sýrðum rjóma í skál. Skerið kældar kartöflur og papriku í bita. Klippið væn knippi af graslauk og kóríander og blandið við salatið.
Soðnar kartöflur
Sellerí
Döðlur
2 msk. dijon-sinnep
4 msk. extra virgin-ólífuolía
Salt
Aðferð: Byrjið á að setja sinnepið og ólífuolíuna saman í skál og hræra duglega. Skerið kældar kartöflur í bita, sellerí í sneiðar og döðlur smátt. Blandið öllu saman í skál og saltið eftir smekk. Þetta salat bragðast best eftir klukkustund í kæli.